Annað kvöld, föstudaginn 1. apríl, frumsýnir Leikfélag Menntaskólans á Akureyri söngleikinn Konung ljónanna í Samkomuhúsinu á Akureyri.

Þessi sýning er byggð á samnefndri kvikmynd frá árinu 1994. Lekstjóri er Vala Fannel. Leikarar, dansarar, hljómsveit og söngvarar skipta tugum og öll umsjá utan leikstjórnar er í höndum nemenda. Um Konung ljónanna er sagt á vefsíðunni http://www.konungurljonanna.com

Aðalpersónan í söngleiknum er Simbi, fjörugur ljónsungi sem einn daginn á að taka við hlutverki föður síns sem konungur ljónanna. En valdagræðgi föðurbróður hans veldur því að Simbi hrökklast burt frá heimaslóðunum, tekur upp kæruleysislegan lífsstíl og gleymir framtíðarhlutverki sínu. Þessi sýning mun ná til allra aldurshópa enda er þetta saga og tónlist sem flestir þekkja. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri hefur undanfarin ár sett upp stórar leiksýningar sem hafa slegið hvert aðsóknarmetið á fætur öðru. Þetta er ein stærsta uppsetning leikfélagsins frá upphafi. Föngulegur hópur menntskælinga hefur lagt allt sitt í að gera sýninguna að veruleika.

Frumsýningin er sem fyrr segir 1. apríl og önnur sýning 2. apríl. Aðrar sýningar má sjá á vefsíðunni, sem greint er frá hér að ofan. Þar má einnig kaupa miða, en þeir eru enn fremur til sölu hjá TIX.IS og hjá MAK.IS