Í kennslustund
Í kennslustund

Menntaskólinn á Akureyri hefur hlotið styrk fyrir verkefnið Starfendarannsókn í MA: Kennsla í fremstu röð.

Verkefnið er starfendarannsókn í MA, með þátttöku kennara úr ýmsum greinum þar sem rýnt verður í starfshætti með hliðsjón af viðmiðum um gæði kennslu skv. PLATO greiningarramma. Sjónum verður beint að samræðum í skólastofunni, tilgangi náms og endurgjöf til nemenda. Kennarar vinna í teymum, rýna þætti í kennslu með myndbandsupptökum úr kennslustundum og niðurstöðurnar verða nýttar til starfsþróunar í MA. Markmiðið er að efla gagnrýna hugsun nemenda og þjálfa þá í að tjá sig, auk þess sem markvisst verður unnið með læsi og textameðferð sem styður við Menntastefnu 2030. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri.

,,Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur úthlutað styrkjum til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Um nýja tímabundna styrki er að ræða til að innleiða aðgerð 2 í menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 um aukna skólaþróun um allt land.

Markmið styrkja er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur og annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að og deila í kjölfarið með öðrum. Horft er til heildarnálgunar á menntun og víðtækrar samvinnu innan skóla og milli skóla og annarra stofnana, auk samvinnu heimila og skóla.

Styrkjunum er ætlað að styðja við nýja nálgun og vera hreyfiafl framfara í skóla- og frístundastarfi við innleiðingu menntastefnu, jafna tækifæri nemenda um land allt og hvetja skóla til nýsköpunar á sviði skólaþróunar." (sbr. mrn.is).