Kristín kynnir vefinn á menntabúðum
Kristín kynnir vefinn á menntabúðum

Kristín Björnsdóttir Jensen er annar tveggja dönskukennara skólans, og hóf störf við skólann í haust. Auk kennslunnar hefur hún útbúið verkefnavef, donskukennsla.com, en þar setur hún inn verkefni sem hún býr til og geta kennarar um allt land nýtt sér þau í eigin kennslu. Hún segir að móttökurnar hafi verið vonum framar og í framhaldinu var hún beðin um að kynna vefinn á menntabúðum í Reykjavík 9. febrúar. Allir dönskukennarar á landinu fengu boð um að vera viðstaddir þessar menntabúðir og þangað mættu því kennarar úr grunn- og framhaldsskólum, auk kennara úr HÍ. Vefurinn og kynning Kristínar vakti verðskuldaða athygli.

,,Það sem ég hef mestan áhuga á er að auka færni nemenda að tala dönsku, með munnlegum æfingum og leikjum. Þar sem ég er að gera þetta svona í „frítímanum“ sem er ekki mikill þá bætast verkefnin hægt og rólega á síðuna.“

Nýjasta verkefnið eru 180 spurningar sem hægt er að nota á öllum skólastigum. ,,Ég var búin að prófa þetta í grunnskóla og prófaði þetta svo fyrir þremur vikum á nemendur hér og það virkaði rosalega vel, þau spjölluðu að minnsta að kosti allan tímann og voru dugleg að spyrja. Þetta eru n.k. samtalsspjöld, framan á spjaldinu eru spurningarnar en á bakhliðinni er sýnt hvernig er hægt að svara spurningunni (til að fá þau til að svara í heilli setningu).“ Vinsælasta verkefnið til þessa er um dönsku konungsfjölskylduna og Margréti drottningu og hennar lífshlaup.

Öll verkefnin eru gerð í Canva og Kristín segir að ef einhver vilji nýta þau í kennslu þá sé ekkert mál að deila verkefninu og það sé hægt að breyta því og aðlaga að viðkomandi námsgrein.