Hagnýt íþróttasálfræði
Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: LÆSI2ME10
Helstu lykilhugtök í íþróttasálfræði eru skoðuð og nemendur líta í eigin barm með það að leiðarljósi að efla sig og innri áhugahvöt sína bæði í íþróttum og í öðru sem liggur fyrir að taka sér fyrir hendur í lífinu. Fjallað er um áhugahvöt, þrautseigju, spennustig, endurgjöf, samskipti, sjálfstraust o.fl. Sérstök áhersla er lögð á hugarþjálfun og hún æfð markvisst alla önnina. Leitast er við að hafa áfangann sem hagnýtastan þannig að nemendur prófa hinar ýmsu aðferðir á eigin skinni og tengja við fræðin eins og til dæmis að gera æfingar ætlaðar til að efla áhugahvöt í íþróttinni, líkamsræktinni sinni eða öðru sem liggur nálægt, taka styrkleikapróf á netinu og vinna með niðurstöður þess í framhaldinu. Einnig verður fjallað um íþróttamenningu sem hefur skapast í hinum ýmsu íþróttagreinum eins og vígslur inn í hópa og fleira í þeim dúr. Munurinn á konum og körlum í íþróttum verður skoðaður sem og fjölmiðalumfjöllun og fjallað um jafnréttisbaráttu innan íþróttahreyfingarinnar og því velt upp hvaða áhrif þessir þættir geta haft á andlega heilsu iðkenda. Markmið er að nemendur þori að stíga fram og að þeir beiti gagnrýninni hugsun hvað þessi mál varðar. Reiknað er með að þriðjungur áfangans verði tekinn utan skólatíma þar sem farið verður í æfingabúðir í að minnsta kosti rúman sólarhring, hópurinn hristur saman, leitað inn á við og unnið að ýmsu verkefnum sem tengjast hugrænni- og líkamlegri þjálfun.
Þekkingarviðmið
- helstu lykilhugtökum í íþróttasálfræði s.s. áhugahvöt, þrautseigju, spennustig, endurgjöf, samskipti o.fl.
- hvernig hugarþjálfun getur farið fram
- VIA styrkleikaprófi
- markmiðssetningu
- íþróttamenningu í mismunandi íþróttagreinum
- andlegum áhrifum fjölmiðlaumfjöllunar og jafnréttisbaráttu
- mikilvægi góðs liðsanda við íþróttaiðkun
Leikniviðmið
- halda uppi samræðum um lykilhugtök íþróttasálfræðinnar
- nýta sér hugarþjálfun til þess að stjórna spennustigi sínu
- greina og vinna úr niðurstöðum VIA styrkleikaprófs fyrir sjálfan sig
- setja sér markmið til lengri og skemmri tíma
- beita gagnrýninni hugsun um íþróttamenningu ýmiskonar, spyrja spurninga og velta fyrir sér áhrifum á einstaklinga/þátttakendur almennt
- halda uppi samræðum um andleg áhrif sem umfjöllun fjölmiðla getur haft á íþróttafólk og jafnrétti kynjanna
Hæfnisviðmið
- efla eigin þrautseigju
- vinna með leiðir til að stjórna spennustigi sínu og minnka streitu
- nýta leiðir til þess að viðhalda og efla áhugahvöt sína í íþróttum eða hreyfingu
- nota sýnimyndir í huganum og aðra hugræna þjálfun til að efla sjálfan sig
- þróa og nýta sér venjur til að efla einbeitingu og auka vellíðan
- nýta styrkleika sína til að efla sjálfan sig og átta sig á hvaða aðra styrkleika er áhugavert að efla enn frekar
- þekkja leiðir til að leggja sitt af mörkum til að efla hópanda
- taka afstöðu til umfjöllunar um jafnrétti kynjanna í íþróttaumfjöllun og íþróttamenningu almennt
Nánari upplýsingar á námskrá.is