- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri leggur ríka áherslu á að nemendur skólans tileinki sér heilbrigðan lífsstíl, jákvætt viðhorf og mannbætandi tómstundir er efla félagsþroska þeirra. Skólinn vill gera nemendum kleift að styrkja sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu með það að markmiði að auka færni þeirra í lífsleikni og sporna gegn allri sjálfseyðandi hegðun. Veigamikill þáttur í þessari viðleitni er sú stefna að freista þess að seinka eftir megni eða koma í veg fyrir að nemendur hefji neyslu á áfengi, tóbaki eða öðrum vímuefnum, ennfremur að aðstoða þá sem þegar hafa ánetjast vímuefnum. Það er stefna skólans að hvetja til heilbrigðs lífernis án vímuefna og í skólanum gilda skýrar reglur um bindindi.
Einnig er Menntaskólinn þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli, sem er stýrt af Lýðheilsustöð (Landlæknisembættinu). Verkefnið felur í sér stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum þar sem unnið er að sjálfstyrkingu og að efla tengsl við grenndarsamfélagið. Höfuðáhersla er lögð á fjögur viðfangsefni. þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.
Á hverju ári er eitt viðfangsefnið ráðandi þáttur í skólanum, þó hin séu að sjálfsögðu alltaf með líka.
Fyrsta árið er tileinkað næringu, og er þá kappkostað að auka aðgengi að hollu og næringarríku fæði. Nær þetta til beggja mötuneyta skólans og sjoppu nemenda, auk fræðslu um matarræði og hollustu. Annað árið verður tileinkað hreyfingu, og verður gert ýmislegt til að auka almenna hreyfingu nemenda og starfsfólks. Þriðja árið er tileinkað geðrækt og er þá unnið með t.d. sjálfsstyrkingu og jákvætt hugarfar. Á fjórða ári eru allir þættir teknir saman og einblínt á heilbrigðan lífsstíl, án áfengis og vímuefna.
Forvarnateymi skólans skipa: Náms- og starfsráðgjafar skólans og sálfræðingur skólans.