Menntaskólinn á Akureyri býður aðkomunemendum að dvelja á heimavist og Mötuneyti MA er opið öllum nemendum og starfsfólki skólans.

Heimavist

Heimavist hefur verið við skólann allt frá því stofnaður var Gagnfræðaskóli að Möðruvöllum í Hörgárdal. Þegar Gamli skóli var byggður árið 1904 voru heimavistarherbergi á háalofti og efstu hæð, en þar gátu búið 40-50 manns. Um miðja síðustu öld var reist ný og stærri heimavist með stóru mötuneyti, og loks 2003 var tekin í notkun nýjasta vistarbyggingin og þá breyttist rekstur vistarinnar. Fram til þess tíma var heimavistin á vegum MA en frá 2003 sér sjálfseignarstofnunin Lundur um reksturinn og frá þeim tíma hafa búið þar nemendur frá báðum framhaldsskólunum, MA og VMA.

Á heimavistinni búa um 330 nemendur en heimavistin samanstendur af tveimur byggingum sem ganga undir nöfnunum gamla vistin og nýja vistin.

Eftirfarandi vinnureglur eru hafðar til hliðsjónar við úthlutun  á leigurými á heimavistinni:

  1. Ólögráða nemendur beggja skólanna hafa forgang.
  2. Nemendur skólanna sem sækja sérnám sem ekki er boðið upp á í heimabyggð nemenda hafi forgang.
  3. Nemendur, sem sækja nám mikilvægt skólunum, hafa forgang.
  4. Verði laus rými skal að öðru jöfnu úthluta þeim miðað við upphaflegt hlutfall 2/3 MA og 1/3 VMA, þó skulu skólameistarar funda með framkvæmdastjóra heimavistar og leysa úr vanda umsækjenda sem falla ekki undir 1 – 3.

Vefur Heimavistar MA og VMA

Mötuneyti MA

Mötuneyti hefur fylgt heimavistinni frá upphafi. Á meðan vistarnemendur bjuggu eingöngu í Gamla skóla var matsalur þeirra þar sem nú er vinnustofa kennara Undir Svörtuloftum og eldhúsið þar sem eru skrifstofur brautastjóra. Á sjötta áratug síðustu aldar flutti mötuneytið í  húsnæðið þar sem það er enn. Ákveðnar reglur gilda um aðild vistarbúa að mötuneyti, en það er auk þess opið öllum nemendum skólans, hvort sem þeir eru aðkomufólk sem býr úti í bæ eða bæjarnemendur. Þar má kaupa fast fæði eða stakar máltíðir eins og sjá má á verðskrá Mötuneytis MA.