Veggspjöldin fjögur sem hér fylgja eru byggð á hugmynd frá finnskum geðverndarsamtökum, Mieli, https://www.mielenterveysseura.fi/en en þau hafa útbúið nokkur veggspjöld sem eiga að vekja fólk til umhugsunar um eigin velferð. Áherslan í þeim fjórum sem hér birtast er á hvaða þætti ungt fólk geti mögulega haft sjálft áhrif. Þýðingu og staðfærslu hugtaka og hugmyndar vann Bjarni Guðmundsson kennari við Menntaskólann á Akureyri en um grafíska útfærslu sá Sólveig Gærdbo Smáradóttir hjá Ásprenti - Stíl á Akureyri. Uglusjóður Menntaskólans á Akureyri styrkti framtakið.
|
ÖRYGGISNETIÐ: Bent er á að enginn sé einn þótt viðkomandi líði kannski þannig. Í kringum okkur er fólk sem vill styðja okkur og við getum leitað til. Langflestir eru traustsins verðir og vísa okkur þá áfram ef þarf. |
|
TILFINNINGAHJÓLIÐ: Leggur áherslu á að margar tilfinningar séu manninum áskapaðar þótt sumar séu uppbyggilegri en aðrar. Við getum orðið reið og afbrýðisöm en þetta eru tilfinningar sem koma og fara. Stundum þarf að bíða af sér tilfinningarótið og grípa þessar uppbyggilegu þegar þær gefast og næra þær. |
|
VARNIR: Það er ýmislegt sem getur gagnast okkur í lífsbaráttunni. Hver og einn hefur sínar bjargir en það þarf að muna eftir þeim og nýta þær vel. |
|
VERNDARHÖNDIN: Í lófa okkar er gildismat og val. Fingurnir umhverfis tákna fimm þætti sem við getum haft áhrif á og bætt líðan okkar með að sinna þeim vel. Umræðunni gæti fylgt lítill leikur þar sem fólk réttir fingurinn út ef þeim þætti hefur verið sinnt vel t.d. í vikunni en kreppir fingur inn í lófann ef það hefur ekki gengið eftir. |
Frekari fyrirspurnum má beina á netfangið bjarni@ma.is
Febrúar 2019
Bjarni Guðmundsson
Menntaskólanum á Akureyri