Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 eiga framhaldsskólar að setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Markmiðið er að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál, stunda nám í framhaldsskóla og taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Í aðalnámskrá framhaldsskóla segir:

„Framhaldsskólar skulu koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu, liðsinni við heimanám, jafningjastuðningi og öðrum þeim ráðum sem að gagni mega koma. Hver skóli skal setja sér móttökuáætlun þar sem fram koma helstu atriði um skólastarfið á máli sem nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta skilið. Í móttökuáætlun felst að gerð sé einstaklingsnámskrá sem tekur mið af bakgrunni og tungumálafærni viðkomandi, að þróa námsaðferðir til að mæta viðkomandi nemendum, að skipuleggja samráð nemenda og starfsmanna skólans og upplýsa með skýrum hætti hvaða stuðning skólinn veitir til dæmis við heimanám og túlkun. Sérstaklega skal huga að þeim nemendum sem íslenskir eru en hafa dvalið langdvölum erlendis.“

Í Mentaskólanum á Akureyri er bekkjakerfi. Nemendur með annað móðurmál en íslensku stunda íslenskunám með bekknum sínum eftir því sem kostur er. Skólinn skoðar hverju sinni þörf á sérstöku námsframboði í íslensku og/eða úrræði hvað varðar áfanga þar sem mikið lesefni er á íslensku, aðstoð við lokaverkefni og/eða próftöku á prófatíma.

Móttökuviðtal

Í upphafi skólaárs boðar verkefnastjóri nemendur ásamt forráðafólki  í viðtal, markmið með viðtalinu er að skipuleggur þá þjónustu sem nemendur þurfa. Upplýsa forráðafólk um starfsemi og reglur skólans, samstarf milli heimilis og skóla,  farið yfir hvernig hægt sé að fylgjast með mætingu og miðannaramati og fá upplýsingar um hvernig sé best að vera í samskiptum.

Skimunarferli og möguleg úrræði

Í upphafi skólaárs hefst skimunarferli til að finna út hve margir nemendur sem eru að innritast í 1. bekk falla undir þennan málaflokk.

Verkefnastjóri, í samráði við kennara nemandans fer yfir útbýr áætlun fyrir nemandann er varðar nám hans í skólanum.  Sem dæmi um úrræði eru t.d. eftirfarandi:

Úrræði:

  • Aðstoð við heimanám/íslenskunám: Boðið er upp á heimanámstíma einu sinni í viku.
  • Sérstakir íslenskuáfangar: Ef nemandi hefur ekki tök á því að fylgja íslenskuáföngum bekkjarins er hægt að taka í fjarnámi frá öðrum skólum sérstaka áfanga í íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku
  • Færri einingar í íslensku: Nemendur með annað móðurmál en íslensku hafa heimild til að taka færri einingar í íslensku. Miðað er við að einingar í kjarnagreinunum, ensku, íslensku og stærðfræði, séu ekki færri en 45.
  • Námsmat:
    • Nemendur geta sótt um lengri próftíma, munnleg próf eða önnur úrræði eftir því sem við á. Breytt námsmat, s.s. símat í stað prófa þar sem nemendur skila verkefna- eða vinnubókum.
    • Hlutapróf í stað lokaprófs
    • Nemendur fá lokið/fallið fyrir áfanga í íslensku
    • Áfangar eru á lægra þrepi
    • Efnistök aðlöguð að þörfum nemandans, meiri áhersla lögð á aðalatriðin með það að leiðarljósi að námið styðji sem best við aðrar námsgreinar
    • Lengdur próftími á loka- og hlutaprófum, auk þess sem nemendur fá að hafa þar til gerð glósublöð með sér í prófunum
    • Kennarar og verkefnastjóri meta hvort nemandi fái að sleppa tilteknum áfanga og taka aðrar einingar í staðinn
    • Skoða í hverju og einu tilfelli hversu mörg sérúrræði þarf að vera um að ræða til að lækka þrep áfanga

Úrræði í öðrum áföngum (ef þarf) útfærð í samráði við nemanda og kennara. Sem dæmi má nefna:

  • lesa námsefni á öðru tungumáli ef svipað er til á móðurmáli viðkomandi nemenda
  • munnleg próf í öðrum áföngum en íslensku og prófúrlausnir á ensku eða öðru tungumáli sem nemandi og kennari sammælast um

Annað:

  • Einingar fyrir móðurmál: Stöðupróf í erlendum málum eru haldin annað slagið í framhaldsskólum landsins og eru nemendur hvattir til að taka þau. Ef ekki er boðið upp á stöðupróf í móðurmáli nemandans getur hann þó alltaf fengið móðurmál sitt metið í stað norræns tungumáls.
  • Undanþága frá norrænu máli: Nemendur sem hafa ekki tekið dönsku (norsku eða sænsku) í grunnskóla eru undanþegin því að ljúka dönsku í framhaldsskóla. Þau þurfa þó að taka einingar í öðru tungumáli í staðinn, en t.d. geta einingar fyrir móðurmál nýst til þess.
  • Ef þörf þykir verður hægt að óska eftir jafningastuðningi fyrir nemendur.
  • Gert er ráð fyrir að nemendur séu í sveigjanlegum námslokum og ljúki stúdentsprófi á 7-8 önnum

Listinn hér að ofan er ekki endanleg upptalning, en lagt er kapp á að koma til móts við þarfir hvers og eins með það að leiðarljósi að námið nýtist nemandanum sem best. Lögð er mikil áhersla á að nemendur sýni metnað og þrautseigju í námi sínu við skólann og miðast aðgerðir við að nemandinn mæti vel og sé með viðunandi námsferil í þeim greinum þar sem námsörðugleika gætir ekki.

Verkefnastjórn:

Sandra Sif Ragnarsdóttir er verkefnisstjóri um málefni nemenda með annað móðurmál en íslensku. Verkefnisstjóri hittir nem./forráðafólk/umsjónarkennara/náms- og starfsráðgjafa grunnskóla í umsóknarferlinu, og tekur við gögnum frá ÍSAT kennurum í viðkomandi grunnskóla.