Bresk menning
Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Áfanginn er valáfangi fyrir nemendur á 3. ári. Hann er skapaður með það í huga að nemendur fái að kynnast menningu og listalífi á Bretlandseyjum. Lögð er áhersla á skapandi og gagnrýna hugsun og að nemendur skoði hvernig við afmörkum og skilgreinum menningu og listir. Í áfanganum verða skoðuð ólík list- og menningarform eins og þau koma fyrir í Bretlandi og hvernig bresk menning og listir hefur áhrif út fyrir eigin landamæri, sérstaklega í ljósi sögu Bretlands sem heimsveldis. Rýnt er í tónlist, myndlist, dans, leikrit, ljóð, kvikmyndir og höfundar slíkra verka skoðaðir nánar. Áfanginn felur í sér menningartengda ferð til Lundúna til þess að sjá og upplifa menningu og listir á eigin skinni, en í þeirri ferð verður farið m.a. á söfn og menningartengda viðburði af ýmsu tagi. Áfanginn felur í sér verkefni sem nemendur vinna ýmist í hópum eða sem einstaklingar og því gerð krafa um aga, sjálfstæði og góða samvinnu.
Þekkingarviðmið
- hvað felst í hugtakinu menning og hver er munurinn á hámenningu og lágmenningu
- ólíkum birtingarmyndum breskrar menningar í gegnum tíðina og fram á okkar dag
- ólíkum formum listsköpunar og frægum dæmum frá Bretlandseyjum
- sértækum orðaforða sem tengist efni áfangans
- áhrifum breska heimsveldisins á menningu og listir annarra landa
Leikniviðmið
- taka virkan þátt í samræðum og umræðum og beita málfari við hæfi
- gera skapandi verkefni á mismunandi formi
- skoða á gagnrýninn hátt ýmis sköpunarverk
- sjá hvernig menning eins lands getur átt þátt í að móta menningu annarra landa
- lesa á milli línanna og átta sig á dýpri merkingu kvikmynda, sjónvarpsefnis og tónlistarmyndbanda
Hæfnisviðmið
- tjá sig á skilmerkilegan hátt og geta tekið þátt í umræðum um menningu og listir
- sjá áhrif lista og menningar í umhverfi sínu
- skilja betur ólíka listsköpun, uppbyggingu hennar og mikilvægi
- finna styrkleika sína þegar kemur að sköpun og hvernig má nýta þá í námi og verkefnavinnu
- víkka eigin sjóndeildarhring
- skilja betur birtingarmyndir bresks menningarlífs hér á landi
- öðlast dýpri skilning á menningu og listum
Nánari upplýsingar á námskrá.is