- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 141. sinn í dag 17. júní.
Brautskráningin fór fram í Íþróttahöllinni sem var skipt upp í sóttvarnarhólf og gestir gátu því verið viðstaddir. Nýstúdentarnir Eik Haraldsdóttir, Eva Líney Reykdal, Íris Orradóttir og Styrmir Traustason fluttu tvö tónlistaratriði.
Alls voru 130 stúdentar brautskráðir, meðaleinkunn árgangsins á stúdentsprófi, það er meðaleinkunn allra einkunna á námstímanum, var há eða 7,8. Þess má geta að níuþúsundasti stúdentinn sem brautskráist frá Menntaskólanum á Akureyri var í hópnum.
Hæstu einkunn í fyrsta bekk hlaut Guðrún María Aðalsteinsdóttir, 9,8
Hæstu einkunn í öðrum bekk hlaut Róbert Tumi Guðmundsson, 9,9
Hæstu einkunn í þriðja bekk hlutu María Arnarsdóttir og Trausti Lúkas Adamsson, 9,7.
Dúx skólans er Trausti Lúkas Adamsson með 9,57 og Margrét Unnur Ólafsdóttir er semidúx með 9,44.
Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.
Í ræðu sinni fjallaði skólameistari um þessa sérstöku tíma og áhrifin á skólahald og félagslíf nemenda. Hann ávarpaði nýstúdenta og sagði að kóvidið hefði ,,vissulega sett svip á rúmt ár af þriggja ára skólagöngu ykkar en nám og kennsla hélt áfram, það var erfiðara fyrir suma en léttara fyrir aðra, bæði nemendur og kennara. Stúdentsprófið ykkar er áfram mjög gott og góður vitnisburður um starf ykkar í MA.“
Skólameistari sagði að stefnt væri að breytingum á skipulagi skólans í þriggja anna kerfi, þrjár 60 daga annir með 4-5 námsgreinum svo nemendur gætu betur einbeitt sér að færri viðfangsefnum. Hann sagðist hafa trú á að þetta gerði skólann meira aðlaðandi fyrir nemendur.
Hann gerði að umtalsefni þær breytingar sem ákveðið hefði verið að gera á vorönninni í kjölfar óvissunnar sem fylgdu önnunum á undan þegar ýmist var staðnám eða fjarnám. Því hafi verið ákveðið að hafa verkefnamiðað mat án lokaprófa á vorönn. Símatið hafi tvímælalaust aukið fyrirsjáanleika í námi, kennslu og námsmati og það hefði verið mun meiri ró yfir annarlokum í vor en áður. Þetta var þó ekki eins mikil breyting og virtist í fyrstu af því símat hefur verið mjög mikið og farið vaxandi ár frá ári. Hann sagði próf aldrei hafa haft neitt með nám og menntun að gera heldur væri það ,,þægilegt guðlegt tæki til að flokka og útdeila gæðum. Það þarf ekki að fara langt aftur í tíma til að sjá að þetta tæki sendi alla með lesörðugleika burt, alla með of ríka athygli burt, og svo mætti telja. Sumir segja að það sé eðli sumra greina að hafa lokapróf, ég sé enga námsgrein sem hefur það í sér að vera sérstakt verkfæri þessarar flokkunar. Við í MA höfum í nokkurn tíma stefnt frá flokkun af þessu tagi t.d. með öflugri fagstjórn, samstarfi og samþættingu greina, aukinni námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu en fyrst og fremst með því að treysta starfsfólki og nemendum til þess að vilja gera eins vel og mögulegt er.“
Skólameistari brýndi einnig ráðuneyti menntamála að tryggja að allt námsefni sé öllum aðgengilegt upplesið. ,,Í dag þarf nemandi að fá greiningu, vera flokkaður frá, til að fá aðgang að upplesnu efni. Nánast allt bóklegt námsmat byggist á lestri en lestur er bara ein aðferð til að nálgast hugsun annarra en alls ekki eina aðferðin. Það er mjög þægileg leið að flokka nemendur með atkvæðum á mínútu og fjölda stafsetningavillna. Það hins vegar hefur ekkert með málskilning að gera og það er málskilningur sem skiptir máli í hugsun og námi.“
Skólameistari nefndi einnig að í opinberum könnunum komi fram að sífellt stækkandi hópur framhaldsskólanema sjái lítinn tilgang með framhaldsskólanámi sínu. Hann sagðist hafa velt því fyrir sér hvort það geti stafað af því að skólar eru að kenna svör en nemendur vilja spyrja spurninga, nemendur séu kannski að segja okkur skólafólki að spurningin sé mikilvægari en svarið?
Tveir starfsmenn voru sérstaklega kvaddir við brautskráningu; Hrefna Gunnhildur Torfadóttir enskukennari til tuttugu ára í MA og Snorri Kristinsson húsvörður sem hættir í vor eftir 25 ára starf við MA. Snorra var veitt gullugla skólans en það er hefð að þeir sem hafa starfað við skólann í 25 ár eru heiðraðir með henni.
Það er líka hefð að fulltrúar afmælisárganga komi að brautskráningu og flestir þeirra styrkja Uglusjóð, hollvinasjóð MA.
Fulltrúi 70 ára stúdenta, Anna María Þórisdóttir, sendi kveðju og stutt ávarp sem verður birt síðar á ma.is.
Fulltrúi 60 ára stúdenta var Einar Gunnar Pétursson
Fulltrúi 50 ára stúdenta var Ingunn Svavarsdóttir
Fulltrúi 40 ára stúdenta var Alma Möller
Fulltrúi 25 ára stúdenta var Arna Guðrún Jónsdóttir
Fulltrúi 10 ára stúdenta var Inga Bryndís Árnadóttir
Skólameistari sagði að við værum svo lánsöm að MA-stúdentum þykir vænt um skólann sinn og ætlast til að hann sé í fremstu röð. Hann sagði að það væri gott að starfa við stofnun sem fylgja hlýjar hugsanir.
Ína Soffía Hólmgrímsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta, hún var forseti skólafélagsins Hugins sem stýrði félagslífi nemenda í vetur við erfiðar aðstæður.
Skólameistari kvaddi svo nýstúdentana og þakkaði þeim samstarfið. ,,Nú erum við á sérstökum tímamótum tregablandinnar gleði, kveðjustunda, þær stundir eru færri þetta vorið en við hefðum viljað. Maður saknar þess sem skiptir máli, það finn ég þegar þið eruð að fara. Þið nýstúdentar hafið verið að þroskast og mótað mannorð ykkar í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk og mannorðið mun fylgja ykkur eins og skólinn. Ég trúi því að einkunnarorð skólans hafi mótað ykkur og að þið ræktið þau áfram með ykkur og hafið eflt með ykkur kjark til að velja og hafna. Menntaskólinn sendir ykkur frá sér tilbúin út í lífið, til að takast á við það og háskólanám af hvaða tagi sem er. En munið að þið getið ekki keypt ykkur hamingju. Hún kemur til ykkar þegar þið eruð að strita að því litla fyrir það mikla.“
Athöfninni lauk á því að Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri var sunginn.