3.A og Símeyjanemendur að spjalla
3.A og Símeyjanemendur að spjalla

Mánudaginn 7. apríl fóru 16 nemendur í 3.A í heimsókn í Símey, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Þar hittu þau fyrir nemendur sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Saman brugðu nemendur MA og Símeyjar á leik og fóru á fjölda hraðstefnumóta þar sem tilgangurinn var að æfa íslenskunotkun og hjálpa fólki að læra og nota tungumálið.

 Ein regla var í hávegum höfð, að tala íslensku og reyna umorðun áður en skipt var yfir í enskuna. Þetta reyndist hin besta skemmtun og höfðu bæði nemendur Símeyjar og MA-ingarnir gott af samskiptunum. Verkefnið var samvinnuverkefni kennara innan MA, Kristín Björnsdóttir Jensen dönskukennnari við MA, hafði frumkvæði að nemendaheimsókninni en hún kennir einnig íslensku sem annað mál við Símey. Það hentaði vel að bjóða nemendum á mála- og menningarbraut að mæta og þau komu ásamt Aðalbjörgu Bragadóttur íslenskukennara. 

Kristín og Aðalbjörg eru sammála um að nemendur beggja skóla höfðu gagn og gaman af samtalinu og eru þetta tvímælalaust samskipti sem ætti að rækta meðal skólanna.