Veðurkort
Veðurkort

Nemendur 4. bekkjar lögðu af stað um klukkan 5 í morgun og héldu til Reykjavíkur og eru komnir á leiðarenda. Ferðin gekk vel

Veðurspá var afar slæm og brottför var flýtt þess vegna. Alma Oddgeirsdóttir sviðsstjóri er með í för og hún sagði að allt hefði gengið eins og í sögu. Áð hefði verið andartak í Borgarnesi og haldið síðan áfram. Veður hafi að vísu verið orðið vont þegar kom á Kjalarnesið en allt hefði gengið að óskum. Veginum var svo lokað skömmu síðar. Klukkan 10 var hópurinn á leið í gegnum Mosfellsbæ og stefndi á Umferðarmðstöðina.

Tilgangur ferðarinnar er að fara á kynningar á háskólanámi og öðru námi og störfum, en Háskóladagurinn er á laugardag. Þá munu margir fara og kynna sér störf og auk þess nýta tækifærið og skjótast í leikhús og á aðra sýningar, sem í boði eru syðra.

Í tveimur rútum á suðurleið eru um 80 nemendur, en allmargir voru farnir fyrr á einkabílum svo hópurinn úr MA er eitthvað á annað hundrað.