Á fimmtudaginn klukkan 5 verða myndbönd nemenda á ferðamálakjörsviði í 4. bekk frymsýnd í Kvosinni í MA. Þetta eru lokaverkefni nemenda eftir þriggja anna nám á kjörsviðinu.

Að þessu sinni fóru nemendur í tveggja daga kynnis- og námsferðir til sjö borga á Ítalíu, Spáni og í Portúgal, en enginn vissi fyrr en lagt var af stað, að þessu sinni við upphaf verkfalls kennara, hvert farið yrði eða hverjir yrðu saman. Vopnaðir myndavélum og leiðbeiningum um borgirnar, sem nemendur höfðu sjálfir gert, hver um sína borg, næstum 30 alls, höfðu hóparnir tvo daga til að afla efnis um borgina sem farið var til, safna myndefni um það helsta sem sjá má og skoða og frásögnum svo og viðtölum við fólk sem þeir hittu á förnum vegi. Síðan hefur verið unnið að því að klippa og fullgera myndböndin, sem verða sem fyrr segir frumsýnd í kvosinni klukkan 5 á fimmtudaginn. Þetta er opið hús og þeim heimill aðgangur sem vilja sjá.