Ljósmynd af Nordahl Grieg í eigu skólans.
Ljósmynd af Nordahl Grieg í eigu skólans.

Menntaskólinn á Akureyri lumar á gömlum munum sem eiga sér áhugaverða sögu. Stundum er saga þeirra óskýr og hulin móðu. Svarthvít ljósmynd í virðulegum ramma af norska skáldinu og andspyrnuhetjunni Nordahl Grieg í fullum herklæðum hefur safnað ryki í geymslu skólans svo lengi sem elstu menn muna. Upplýsingar um myndina eru af skornum skammti. Engar upplýsingar liggja fyrir hvernig skólinn eignaðist myndina eða hvenær. Engar merkingar eru sjáanlegar sem mögulega gætu varpað ljósi á málið, hvorki á myndinni né rammanum. Getgátur um að Gerd Grieg, eiginkona skáldsins hafi gefið Menntaskólanum myndina í október 1944 þegar hún heimsótti skólann hafa sprottið fram. Skjalfest er að frú Grieg færði skólanum áritaða bók að gjöf og bauð nemendum skólans í leikhús. Þá var hún og góð vinkona Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi en hann hafði sterk tengsl við skólann. Hvergi er minnst á að hún hafi fært skólanum mynd af eiginmanni sínum í ramma. Nordahl Grieg hitti nemendur og starfsfólk skólans vorið 1942 á sal Gamla skóla. Hann lést í desember 1943 þegar Lancaster-sprengjuflugvél sem hann var farþegi í var skotin niður yfir Berlín.

Ekki er um auðugan garð að gresja þegar leitað er að myndinni eða afriti af henni á netinu. Á norsku síðunni bokselskap.no má finna sams konar mynd í lélegum gæðum. Ritstjóri síðunnar er Ellen Wiger en hún starfar einnig á Landsbókasafninu í Osló (Nasjonalbiblioteket). Undirritaður hafði samband við Wiger og spurði hvort einhver þar byggi yfir upplýsingum um myndina. Hún svaraði því til að leit að myndinni í stóru myndasafni Landsbókasafnsins í Osló (The National Library’s large photo catalogue) sem og í öðrum myndasöfnum hefði ekki borið árangur. Hún telur líklegt að Gerd Grieg hafi átt myndina þangað til skólinn eignaðist hana. Ef rétt reynist verður gamla, rykfallna myndin af háalofti Menntaskólans skyndilega áhugaverður gripur með merkilega sögu.