- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Dagana 5. og 6. nóvember fóru sögukennararnir Björn Vigfússon og Einar Brynjólfsson með allan 2. bekk í heljarinnar sögu- og menningarferð sem þeir kalla Norðlenzkar miðaldir. Markmið ferðarinnar var að efla söguvitund og -skilning nemenda með því að heimsækja helztu sögustaði á Norðurlandi.
Fyrst var farið fram að Gund í Eyjafirði, þar sem sr. Hannes Örn Blandon fræddi nemendur um sögu staðarins og kirkjunnar. Því næst var ekið að Möðruvöllum í Hörgárdal, þar sem sögu þess merka staðar voru gerð skil.
Næst lá leiðin vestur í Skagafjörð á slóðir Örlygsstaðabardaga, Flugumýrarbrennu og að Haugsnesi (Kringlumýri). Þar sýndi Sigurður Hansen nemendum útilistaverk sitt sem túlkar mannskæðasta bardaga Íslandssögunnar, Haugsnesbardaga, auk þess sem þeir fengu að sjá húsnæði fyrirhugaðrar sögusýningar um Þórð kakala.
Síðasti áfangastaður ferðarinnar var Hólar í Hjaltadal, þar sem heimamenn fræddu fróðleiksfúsa Menntskælinga um sögu staðarins og kynntu nám við Hólaskóla, en þar er boðið upp á háskólanám í ferðamálafræði, fiskeldi og hestafræðum.
Ekki má gleyma framlagi nemenda, en þeir fluttu fyrirlestra um ýmis efni á borð við Jón Arason, Möðruvelli, Jónas Hallgrímsson og Bólu-Hjálmar, svo eitthvað sé nefnt.
Það þarf vart að taka fram að nemendur voru Menntaskólanum á Akureyri til mikils sóma, enda áhugasamir og kurteisir. (EB)
Hér eru í myndasafni fáeinar myndir, teknar í Grundarkirkju, á orrustuslóðum við Haugsnes og heima að Hólum.