- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Dagana 4. og 5. nóvember lögðu nemendur 2. bekkjar land undir fót í árlegri söguferð, sem kölluð hefur verið Norðlenzkar miðaldir. Ferðin hófst á heimsókn í Grundarkirkju, þar sem sr. Hannes Örn Blandon tók á móti nemendum og fræddi þá um sögu kirkjunnar og um sögu Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskups Íslendinga. Að því loknu lá leiðin vestur í Skagafjörð með viðkomu á Möðruvöllum, þar sem rætur Menntaskólans á Akureyri liggja.
Í Skagafirði var farið um sögusvið Sturlungaaldar og fjallað um helstu atburði þessa blóðugasta tímabils Íslandssögunnar. Sigurður Hansen á Kringlumýri, sem er allra manna fróðastur um Haugsnesbardaga, tók vel á móti nemendum og leiddi þá í allan sannleika um þennan mannskæðasta bardaga, sem háður hefur verið á Íslandi.
Þegar hér var komið sögu gerðust nemendur svangir og var ekið rakleitt heim til Hóla þar sem borð mötuneytisins svignuðu undan kræsingum.
Að hádegisverði loknum leiddi Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, nemendur til kirkju, þar sem hún flutti mjög skemmtilega og fróðlega hugvekju. Dvölinni á Hólum lauk svo með heimsókn í Brúnastaði, sem er reiðhöll og hesthús Hólaskóla.
Segja má að ferðin hafi heppnast einstaklega vel, enda voru nemendur áhugasamir, fyrirlestrarnir skemmtilegir og veðrið ágætt miðað við árstíma.
Fararstjórar voru Björn Vigfússon og Einar Brynjólfsson. Sérlegir aðstoðarmenn þeirra voru Jón Már Héðinsson og Geir Hólmarsson, sem tók myndir í gríð og erg seinni daginn, og sjá má brot af því hér.