Dagana 2. og 3. nóvember fóru nemendur 2. bekkjar í söguferð undir leiðsögn sögukennaranna Björns Vigfússonar og Einars Brynjólfssonar. Fyrsti áfangastaður var Grund í Eyjafirði, en þar tók Hannes Örn Blandon á móti hópunum og spjallaði við nemendur um sögu Grundar, trúmál og fleira.  Að því loknu var ekið fram Öxnadal, með viðkomu á Möðruvöllum í Hörgárdal, yfir í Skagafjörð um söguslóðir Sturlungaaldar.

Sigurður Hansen á Kringlumýri, sem er sérlega fróður um átök Sturlungaaldar, fræddi nemendur um Haugsnesbardaga og aðdraganda hans. Þá lá leiðin heim að Hólum, þar sem ljúffengur pottréttur beið nemenda og kennara. Að hádegisverði loknum var gengið til kirkju, þar sem sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup, og Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Hólaskóla, fræddu nemendur um sögu Hólastaðar, kirkjunnar og háskólans.

Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn í Brúnastaði, eitt stærsta hesthús landsins, þar sem nemendur Hólaskóla læra tamningar, reiðmennsku og reiðkennslu.

Tónlistarflutningur nemenda sló öll met í þetta skiptið, en Una Haraldsdóttir, Rán Ringsted, Margrét Hildur Egilsdóttir, Sigrún Þóra Þorkelsdóttir og Alexander Kristján Sigurðsson sáu um hann með mikilli prýði.

Einar Brynjólfsson tók saman texta og myndir.