- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Um árbil hefur verið fastur liður i sagnfræðikennslu í MA að nemendur fari í náms- og kynnisferð á Sturlungaslóðir.
Dagana 3. og 4. nóvember fóru nemendur 2. bekkjar í hina árlegu söguferð, Norðlenzkar miðaldir, ásamt sögukennurunum Birni Vigfússyni og Einari Aðalsteini Brynjólfssyni. Fyrri daginn fór Björn með nemendur tungumála- og félagsgreinasviðs og honum til aðstoðar var Anna Sigríður Davíðsdóttir. Seinni daginn fór Einar með nemendur raungreinasviðs og honum til aðstoðar var Arnar Már Arngrímsson.
Dagskrá ferðanna var á þá leið að fyrst var ekið fram að Grund í Eyjafirði, þar sem sr. Hannes Örn Blandon tók á móti hópunum og fræddi þá um þetta fornfræga höfuðból og hina glæsilegu Grundarkirkju.
Þá var stefnan tekin vestur í Skagafjörð, með stuttri viðkomu á Möðruvöllum í Hörgárdal og í Jónasarlundi. Sigurður Hansen á Kringlumýri í Blönduhlíð, sérfræðingur um Sturlungaöld, fræddi nemendur um blóðugasta bardaga Íslandssögunnar, Haugsnesbardaga, en hann hefur stillt upp steinum til að sýna hvar menn stóðu í þeirri orrahrið.
Að loknum ljúffengum hádegisverði heima á Hólum í Hjaltadal var gengið til kirkju, þar sem sr. Gylfi Jónsson og dr. Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Hólaskóla, fluttu áhugaverð erindi um sögu staðarins og hlutverk hans fyrr og nú.
Síðasti þáttur vel heppnaðrar ferðar var svo heimsókn í Brúnastaði, stórglæsilegt hesthús Hólaskóla.
Einar A. Brynjólfsson tók ágætar myndir í ferðinni, sem sjá má meðal annars hér.