- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Á hverju ári er rætt um áfengisnotkun unglinga og umræðan tengist eðlilega framhaldsskólunum, af því að á á þeim aldri byrja flestir unglingar að eiga við áfengi, í busapartíum og öðrum samkomum sem ekki eru áfengislausar. Í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem allt opinbert félagslíf nemenda er vímuefnalaust, hafa Foreldrafélag MA og skólayfirvöld reynt að stuðla að því í samráði við nemendur efstu bekkja að seinka því að börn byrji að drekka, meðal annars með því fororði að það séu mannréttindi að drekka ekki. Þetta hlýtur svolítið misjafnan hljómgrunn. Þó verður að segja eldri nemendum til hróss að þeir hafa staðið vel að samkomulagi um að fyrstu mánuði skólaársins skuli ekki haldnar samkomur þar sem áfengi er haft um hönd, en ýmislegt annað gert þar sem fyrstu- og fjórðubekkingar koma saman.
Áhyggjur foreldra og skólayfirvalda eru þó nokkrar, við hverju búast má þegar samningur eins og þessi er að baki. Sumir foreldrar vilja treysta börnum sínum og fjórðubekkingunum til að halda samkvæmi þar sem börn þeirra séu örugg á meðan aðrir foreldrar vilja einfaldlega banna svona samkomur. Nú munu þess dæmi að fjórðubekkingar hafi sent foreldrum erindi út af væntanlegum heimboðum fyrir fyrstubekkinga og falast eftir trausti og sameiginlegri ábyrgð. En í hópi nemenda eru líka allmargir sem hafa áhyggjur af því að hætta geti stafað af þessum samkvæmum. Einn þeirra bað um að fá birtan þennan pistil:
Ekki eru mörg ár frá því að samræmdu prófin voru haldin að vori og foreldrar, grunnskólar og félagsmiðstöðvar gerðu allt í þeirra valdi til að koma í veg fyrir að unglingarnir myndu byrja að drekka eftir prófin. Þetta var samstillt átak foreldra og þeirra sem hugsa um börn og unglinga með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
Af þessu má dæma að foreldrar og sérfræðingar í uppeldisfræðum telja það ekki æskilegt að unglingar drekki og í raun leggja sig fram við að koma í veg fyrir það. Með þessar upplýsingar til hliðsjónar er það sérkennileg afstaða að finnast í lagi að bjóða unglingum, sem eru á sama aldri og unglingar þess tíma þegar samræmdu prófin voru að vori, heim til fullorðinna einstaklinga og búa til kjöraðstæður til áfengisdrykkju og í sumum tilfellum hvetja til drykkju. (Einstaklingur fæddur í desember er jafnvel yngri en sumir þeirra auk þess sem að í MA er krílabekkur sem er ári yngri.)
Fyrir ekki mörgum árum var unglingjadrykkja í grunnskólum töluvert meiri en hún er í dag. Margir þættir höfðu áhrif á að hækka aldur þeirra sem byrja að drekka eins og til dæmis hækkun sjálfræðisaldurs og aukin áhersla á forvarnarstarf. Við hlæjum að því í dag að unglingar hafi áður fyrr fengið að drekka á böllum í Dynheimum og í raun skiljum ekki að þetta hafi þótt eðlilegt. Ósamkvæmnin er þó nokkur því við erum enn að gera þessa sömu hluti með sama aldurshóp og mörgum finnst það ekki bara eðlilegur hlutur heldur nauðsynlegur hlutur. Er það eðlilegt að berjast fyrir því að fá að bjóða 15 og 16 ára unglingum heim til sín í aðstæður sem bjóða upp á drykkju?
Er það þannig að við nemendur á síðasta ári í framhaldsskóla vitum betur en sérfræðingar í uppeldis- og forvarnastarfi?
Kannski er þetta ekki svona einfalt, kannski hefur þessu ekki verið velt upp á þennan hátt áður. Kannski fylgir alltaf ákveðin spenna að sýna nýjum einstaklingum hvernig hlutirnir hafa alltaf verið. Eðli okkar er að sýna nýrri kynslóð með okkar hætti að samfélög byggjast upp á þennan hátt.
En ábyrgðin okkar gagnvart unglingum er sanngjörn. Á sama tíma er það líka eðlilegt að við séum spennt fyrir því að bjóða ný andlit velkomin. Ef við sameinum þessar hugleiðingar þá er það ábyrgð okkar að bjóða ný andlit velkomin á heilbrigðan hátt.
Stöndum saman og leyfum börnum að njóta þess að vera börn.
Jónas Sigurbergsson