- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Nemendur í Íslandsáfanganum hafa unnið að margvíslegum verkefnum, oft nýstárlegum. Sumar verkefnahugmyndir nemenda um að hafa áhrif á samfélagið hafa vakið athygli fjölmiðla.
Verkefnið sem felst í því að reyna að hafa árif á samfélag sitt með einum eða öðrum hætti er hluti af þemanu íslensk stjórnmál og má segja að sé lokaverkefnið, í SAM-hópnum, sem á önninni fæst vði sögu og samfélag.
Í stuttu máli sagt vinna nemendur í litlum hópum þar sem hver hópur finnur sér málefni til þess að vinna að, eitthvað sem þarft að breyta til betri vegar í samfélaginu. Margir hópar hafa einbeitt sér að nánasta umhverfi sínu, skólanum, vilja bæta aðstöðu í samkomusalnum Kvosinni, auka val innan veggja skólans, breyta sætaskipan í stofum, o.fl. Nýlega var sett upp vatnsvél í skólanum eftir að einhver hópurinn ,,barðist" fyrir því. Annar hópur vakti athygli á munntóbaksnotkun innan veggja skólans, vaskar á karlaklósetti voru fullir af munntóbaki og hópurinn fékk forvarnarfulltrúa skólans í lið með sér til þess að berjast á móti þessum ófögnuði. Sami hópurinn benti á að aðstaðan í íþróttahúsinu væri ekki beinlínis til fyrirmyndar og fékk skólameistara til þess að kaupa nýja bolta því þessir gömlu voru víst orðnir æði slitnir.
Dæmi um önnur verkefni sem nemendur hafa verið að vinna að, er að reyna að fá klukkuna færða til um klukkustund, koma á strætóferðum upp í Hlíðarfjall, lækka verð á smokkum og herða refsingar fyrir kynferðisafbrot. Nemendur hafa farið ýmsar leiðir til þess að ná fram markmiðum sínum, safnað undirskriftalistum, skrifað bréf til áhrifafólks, rætt við fjölmiðla til þess að vekja athygli á málstað sínum og margt fleira. Auðvitað hafa nemendur ekki allir fengið sínu framgengt, enda er það ekki aðalatriðið með verkefninu. Markmiðið var að fá nemendur til þess að skilja að þeir geti haft áhrif á umhverfi sitt með því að láta sig það varða, sitja ekki þegjandi og aðgerðalaus ef hlutirnir eru ekki í lagi.
Svo mikla athygli hefur sumt af þessum baráttumálum nemenda hlotið að stóru fjölmiðlarnir hafa gert grein fyrir þeim. Til dæmis var sagt frá hugmyndum um að krefjast lægra verðs á smokkum á vef Morgunblaðsins, sagt var frá hugmyndum um nauðsyn þess að hafa strangari refsingar við kynferðisafbrotum á vef DV (http://www.dv.is/frettir/2011/1/5/ungar-stulkur-vilja-thyngja-refsingar-gegn-kynferdisbrotum/) og í dag voru tíðindamenn RÚV að taka viðtöl við nemendur út ef þessum verkefnum.