- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þau eru ófá handtökin að baki hverju prófi sem haldið er. Nemendur þreyta próf sem kennarar semja og fara yfir, en þar á milli er svo prófumsjónin. Þegar kennari hefur samið próf er það fjölfaldað í afgreiðslu skólans. Vegna sérþarfa nemenda þurfa sum prófin að vera á pappír í tilteknum litum, sum jafnvel á minnislyklum til nota í sérstofum eða lesin upp á til þess gerð tæki.
Prófstjórnina hefur aðstoðarskólameistarinn Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir með höndum. Fyrst þarf að semja próftöflu, sem borin er undir kennara og Hagsmunaráð nemenda áður en hún er birt. Þá þarf að skipa bekkjum í prófstofur og einnig þeim einstaklingum sem eru í sérstofum. Það þarf líka að semja yfirsetutöflu, þar sem kennarar eru settir til að sjá til þess að allt fari að settum reglum í prófstofum.
Á próftímanum sjálfum hefur prófstjórinn sér til fulltingis að minnsta kosti námsráðgjafana Herdísi, Karen og Lenu. Þá þarf að undirbúa hvern prófdag, fyrir og eftir hádegi, raða í kassa öllum þeim gögnum sem nota skal í hverri prófstofu og fá yfirsetufólki þá í hendur. Það þarf líka að fylgjast með því hvort einhverjir láta sig vanta í prófin og jafnvel ræsa þá sem sofa yfir sig. Síðan er tekið við úrlausnunum og þeim komið til kennara, sem að lokum skila einkunnum, sem prófstjóri og Þorbjörg Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri sjá um að koma fyrir í nemendabókhaldinu. Og að reglulegum prófum loknum þarf svo að sjá um og skipuleggja sjúkra- og endurtökupróf. Þetta er sem sagt ekki eins einfalt og það kann að virðast.
Á myndinni eru Sigurlaug Anna og Herdís Zophoníasdóttir að undirbúa prófin sem voru eftir hádegi í gær.