Heimir Björnsson, jafnréttisstýra MA
Heimir Björnsson, jafnréttisstýra MA

Börn eru börn og unglingar eru unglingar og strákar eru strákar og stelpur eru stelpur. Þetta eru gamlar tuggur og klisjur sem allir hafa heyrt. Þær eru tilraun til þess afsaka hegðun sem ætti sjaldnast að líðast yfirleitt.

Á íþróttadegi MA kom upp atvik sem fólk keppist við að fordæma eða afsaka með mismunandi hætti og því er miður. Þó virðist að einn drengur, sá hinn sami og gerði sig sekan um mistökin, hafi haft vit til þess að gera það rétta. Að biðjast afsökunar. Ég finn til með þeim nemendum sem fannst ráðist á sig  með einum eða öðrum hætti. Það er ósköp eðlilegt og þau eiga fullan rétt á því að vera reið, pirruð og sár út í þennan dreng. Svona hegðun er til skammar og á að vera það. En við getum ekki spólað til baka og við græðum ekkert á hefndinni í hvaða fomi sem hún birtist.

Áfram heldur heimurinn að snúast víst og áfram heldur lífið með fordómum og án þeirra. Mér þykir miður að þetta skuli hafið komið upp í MA og ég finn til ákveðinnar skyldu til þess að tjá mig um þetta sem jafnréttisstýra MA. Og hvað eigum við þá að gera?

Við þurfum að finna lausn. Reyndar erum við búin að, held ég, búin að berjast fyrir jafnrétti kynjanna, berjast gegn einelti og berjast gegn þessari klámvæðingu, kven- og sjálfsfyrirlitningu. Ég tala um sjálfsfyrirlitningu því ég tel að sú manneskja sem leyfir sjálfri sér að taka þátt og/eða lætur kvenfyrirlitningu yfir sig ganga beri ekki næga virðingu fyrir sjálfri sér sem persónu. Mér virðist hins vegar eins og við séum  búin að berja hausnum í vegg í endaleysu. Vissulega hefur eitthvað áunnist en það virðist hverfa jafnskjótt og förin í sandinum þegar langstökkvarinn hefur staðið upp úr sandgryfjunni. Jafnvel þó svo allir standi upp og klappi fyrir afrekinu.

Það er vissulega sorglegt að horfa yfir fjölmiðlaumfjöllun síðustu vikna þar sem fréttir af kvenfyrirlitningu og fordómum menntaskólanema á Íslandi hafa verið áberandi. En er það lausnin? Erum við að leysa málin á spjallþráðum og fésbók? Fjölmiðlar verða ennfremur að taka ábyrgð. Þessi drengur hefur ekki aðeins verið nafngreindur heldur birt af honum mynd í ofanálag.

Og það ekki minna áhyggjuefni að stúlkurnar sem tjáðu sig fyrstar um fréttina hafa ekki viljað koma fram undir nafni. Hvað segir það um samfélagið hér? Að þær séu hræddar við að vera bendlaðar við þetta? Að þær óttist viðbrögð þessa litla samfélags okkar? Að þeim líði eins og brotaaðila eða svikara með því að ræða um kynferðislega mismunum. Er ekki eitthvað stórkostlega rangt við það?

Fjölmiðlar eru einfaldlega að bjóða fólki upp á það að vera tætt í sundur á spjallsíðum þar sem Jón, Gunna og Páll hella sér yfir fólk. Persónur og einstaklinga sem í flestum tilvikum geta engum vörnum beitt. Sumt af því sem fólk lætur hafa eftir sér á spjallsíðum er hræðilegt að lesa. Svo ljótt og vanhugsað að maður hreinlega verður sorgmæddur. Eru persónulegar árásir í lagi ef setið er fyrir framan skjá? Er rafrænt einelti í lagi?

Ég ítreka að drengurinn hefur þegar beðist afsökunnar og það er sennilega það eina sem hann getur gert. Utan þess auðvitað að sýna í verki bót og betrun. Það er vonandi að drengurinn, og raunar allir, taki þetta raunverulega til sín og vonandi að nemendur og starfsfólk finni það hjá sér að fyrirgefa honum. Ég þekki þennan dreng ekki af öðru en góðu og vil ekki trúa því að þessi vitleysisgangur sem átti sér stað sé annað og meira en vitleysisgangur.

En hvar liggja mörkin? Og hver á að fá að ráða því hvernig við hegðum okkur og hvað við gerum? Hvað með þetta málfrelsi og skoðanafrelsi og hitt og þetta frelsið? Við þurfum, held ég, alvarlega að íhuga hvað það er sem við erum að höndla í þessu frelsi. Og að mörgu leyti tel ég ennfremur að við eigum alls ekkert með að vera að fikta með þetta frelsi. Við höfum sýnt, og sýnum fram á það hvað eftir annað, að við virðumst ekki fyllilega skilja hvernig á að fara með allt þetta frelsi. Þó virðist mér sömuleiðis ljóst að heimurinn væri sennilega verr staddur ef ekki fyrir allt þetta frelsi.

Við höfum það ótrúlega gott og þökk sé fyrri kynslóðum höfum við fæðst inn í samfélag sem er ótrúlega skilvirkt og gott að mörgu leyti. Þessar kynslóðir sem nú lifa eru þó merkilega ólíkar. Munurinn á áttræðum og átján ára virðist orðinn svo mikill að ég hugsa túlkur væri nauðsynlegur ættu þessar kynslóðir að eiga einhver samskipti að ráði. Og fyrir manneskju sem upplifði allar þessar breytingar er sennilega sárt að hversu lítils virði öll þessi barátta er í augum nýjustu kynslóðanna. Staðreyndir í sögubók og mynd af einhverri Bríet fylgir með.

Nú vil ég forðast þann misskilning að ég sé fortíðarrómantíker sem telur allt batna eftir því fæðingar- eða framleiðsluár er nær árinu 1900. Það er alls ekki svo en mér finnst eins og við gerum okkur ekki nógu vel grein fyrir því hversu mikið hefur breyst og hversu illa við erum að fara með þetta frelsi sem við lítum á sem sjálfsagðan hlut.

Þetta er kannski ekki pistillinn sem þið bjuggust við. Ekki klisjan þar sem jafnréttisstýran öskrar með tilheyrandi upphrópunum, stríðshrópum og kröfu um afsögn allra sem viðkoma málinu, þar á meðal minni eigin. Ég vil benda þeim á, sem lesið hafa umræðurnar á netinu, að þessi drengur er í skóla, hann er ekki með lága greindarvísitölu og svo sannarlega ekki réttdræpur. Hann gerði mistök og baðst afsökunar. Við lifum og lærum og hann er enn að. Raunar við ættum við öll að muna það.

Skólakerfið verður í heild sinni að taka af skarið. Það er því sitthvað sem bæta þarf í skólakerfinu og við kennarar þurfum greinilega að taka okkur tak. Það er sitthvað sem þarf að breytast hjá fjölmiðlum og greinilega þarf ennfremur eitthvað að breytast á heimilinum í landinu. Það er ekki hægt að varpa ábyrgðinni yfir á einhvern einn eða tvo.

Ég vil benda á að kynjafræði er kennd hér við MA, en hún er samt sem áður bara valfag. Siðfræði er nú loksins kennd við flesta framhaldsskóla landsins og það er fag sem getur hjálpað okkur mjög í baráttunni við fordóma og fleira eitur í samfélaginu. Ég veit að í Íslandsáfanganum hjá okkur er talsvert rætt um þessa hluti og í félagsfræðinni líka. Vonandi förum við fljótlega að sjá einhver merki þess að kennslan hafi tilætluð áhrif. En þó verðum við að spyrja okkur hvort að við séum yfirleitt að fara rétt að? Um leið hvet ég menntamálaráðuneytið að íhuga alvarlega að bæta kynjafræði inn í námskrá sem skyldufagi.

Þetta virðist ætla að verða eilífðar barátta hjá okkur. Og ég viðurkenni það fúslega að mér er það nánast óskiljanlegt hvernig þetta getur verið vandamál. Ég bara hreinlega skil ekki hvernig svona fordómar þrífast í samfélaginu! Um leið og svar við þeirri spurningu finnst getum við kannski leyst þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Einhverstaðar segir samt að góðir hlutir gerist hægt en mikið ofboðslega er ég orðinn þreyttur á biðinni.

Heimir Björnsson
Jafnréttisstýra MA.