- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þá er fyrsta vikan í námi og kennslu, eftir skólalokun, liðin. Föstudaginn 20. mars var haldinn fagstjórafundur á Zoom og fóru þá fagstjórarnir yfir hvernig þeir teldu að hefði gengið í þeirra greinum. Heilt yfir má segja að fyrsta vikan hafi gengið vel en auðvitað hefur þetta verið mikill álagstími hjá nemendum og kennurum að þurfa alfarið að reiða sig á rafræn samskipti, ekki síst vegna þess að fram að þessu hefur skólinn lagt mikið upp úr staðnámi og samveru í námshópum og bekkjum. Menntaskólinn sendir starfsfólki sínu og nemendum þakklætiskveðjur fyrir að hafa tekið þessum nýju aðstæðum af æðruleysi og yfirvegun.
Fagstjóri í íslensku tók hús á samkennurum sínum í lok vikunnar. Þar kemur fram að allir eru að fóta sig í nýjum veruleika, það þarf að dusta rykið af tækniþekkingu og reka sig í leiðinni á rafræna veggi. Kennarar leiðbeina og eru nemendum innanhandar á netinu; hitta þá t.d. á Zoom, taka rafræn viðtöl, lesa yfir lokaverkefni, hvetja þá áfram í lestri á Njálu og tölvupósturinn er auðvitað rauðglóandi. Nemendur hafa að sögn líka áttað sig betur á forrréttindum sínum núna, hvað við höfum það gott að mega vera í skóla og hitta nemendur og kennara. En eins og kemur fram í upphafi myndbandsins þá er líka gott og nauðsynlegt að fara út og hreyfa sig.
Það eru líka skilaboðin frá íþrótta- og raungreinakennurum. Það þarf að huga að andlegri og líkamlegri heilsu samhliða náminu, - og kannski aldrei mikilvægara en nú þegar allir eru undir miklu álagi. Þeir minna nemendur á að hreyfa sig, fara út, hafa gaman, styðja hvert annað, og já fara í ruglusokka og jafnvel klæða sig upp á. Og auðvitað ganga kennararnir á undan með góðu fordæmi eins og sjá má í myndbandinu.
Ennfremur má minna á viðtöl við skólameistara og Kristínu Elvu skólasálfræðing á N4.