Margt er um að vera í félagslífi nemenda. Um þessa helgi má nefna þátttöku í ræðukeppni á ensku í Reykjavík og Kór MA er um helgina á kóramóti.

Hér hefur verið sagt frá glæsilegri söngkeppni í vikunni og leikur MA og FSu í Gettu betur, sem fara átti fram í gær, fluttist til um viku og verður á föstudaginn kemur.

Í dag keppir Erla Sigríður Sigurðardóttir í 3X fyrir hönd MA í ræðukeppni framhaldsskóla, National Speaking Competition, sem haldin er í samstarfi við ESU, The English Speaking Union. Keppnin í ár fer fram í Háskólanum í Reykjavík. Þemað sem ræðufólki var úthlutað er Integrity has no need of rules og má hver keppandi túlka það á sinn hátt. Sigurvegarinn tekur svo þátt í alþjóðlegri ræðukeppni á vegum ESU í London í maí. Þess má geta að MA átti fulltrúa í þeirri keppni, Ásgerði Ólöfu Ásgeirsdóttur, árið 2014.

UM þessa helgi er SAUMA, kór Menntaskólans á Akureyri á kóramóti í Reykjavik ásamt kórstjóranum, Guðlaugi Viktorssyni.

Á þriðjudag er svo forkeppni í Landskeppni í efnafræði, og ræðst þar hvaða 12-16 nemendur fá að taka þátt í úrslitakeppninni, sem fer fram 19. og 20 mars.