Það er gaman að segja frá velgengni gamalla nemenda skólans og stöku sinnum berast okkur tíðindi. Í þetta sinn af doktorsvörn Sigurðar Stefánssonar og hönnun Emilíu Borgþórsdóttur.

Miðvikudaginn 16. júní fer fram doktorsvörn við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Sigurður Örn Stefánsson eðlisfræðingur doktorsritgerð sína Tvö líkön af slembitrjám (e. Topics in random tree theory). Sigurður varð stúdent frá MA árið 2002, lauk BS-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og MS-prófi í stærðfræðilegri eðlisfræði frá sama skóla árið 2007. Síðan hefur Sigurður unnið að doktorsritgerð sinni við Raunvísindadeild HÍ, og virta háskóla í Póllandi og Frakklandi. Sjá nánar tilkynningu frá HÍ.

Emilía Borgþórsdóttir varð stúdent frá MA 1994, lauk námi í sjúkraþjálfun frá HÍ 2001 og loks prófi í iðnhönnun frá Art Institute of California í Bandaríkjunum 2009. Hún hefur nýverið slegið í gegn á hönnunarsýningum í Bandaríkjunum með hægindastól sinn Surt - en Emilía er Vestmannaeyingur. Nánar má sjá um Surt hér (http://emiliaborgthor.com/design_1A.html).

.