Kór MA syngur
Kór MA syngur

í dag var þess minnst í Menntaskólanum á Akureyri að 130 ár eru síðan skólahald hófst á Möðruvöllum í Hörgárdal og 80 ár síðan Menntaskólinn á Akureyri varð til. Stofnun skólans á Möðruvöllum markaði tímamót í menntunarsögu Norðurlands því þá var endurvakinn bóknámsskóli eftir rúmra átta áratuga hlé, frá því stólskólinn var lagður af á Hólum í Hjaltadal og allar meiri menntastofnanir fluttar til Reykjavíkur. Skólinn á Möðruvöllum var nefndur gagnfræðaskóli og starfaði til 1902, þegar skólahús þar brann. Þá var starfsemi skólans flutt til Akureyrar, var til bráðabirgða í tvö ár í Gamla barnaskólanum, en fluttist í splunkunýtt og glæsilegt hús á Brekkubrúninni 1904. Gagnfræðaskólinn starfaði þar og varð síðan menntakóli árið 1930, eftir langa og mikla baráttu á alþingi og í ráðuneytum, því það var ekki sjálfsagt talið að stúdentar væru gildir kæmu þeir úr skólum utan af landi. Þó hafði um fáeinna ára skeið verið kennt til stúdentsprófst nyrðra, en prófin þurfti að taka fyrir sunnan. Menntaskólinn á Akureyri hefur starfað óslitið síðan 1930 og brautskráð 7122 stúdenta.

Afmælishátíðinni var valinn dagurinn 11. nóvember vegna þess að það er fæðingardagur sr. Matthíasar Jochumssonar, sem kom mikið við sögu norðlenska skólans, átti þar vini í kennarastétt og orti skólanum söngva, sem því miður hafa fallið í gleymsku. Lengi vel, á meðan ráðuneyti heimiluðu að í skólum væru mánaðarfrí, var siður í MA að nóvemberfríið tengdist minningunni um sr. Matthías, var jafnvel kallað Mattíhasarfrí. Í dag eru liðin 175 ár frá fæðingu Matthíasar Jochumssonar og á þessu ári 90 ár frá andláti hans.

Jón Már Héðinsson skólameistari ávarpaði nemendur og bauð þeim í afmælisveislu þar sem á boðstólum var súkkulaðikaka og kakó ellegar ávaxtadrykkur. Að því loknu stóð skólafélagið Huginn fyrir dagskrá þar sem nokkur öflugustu félög í skólalífinu komu fram með fjölbreytt atriði í tali, myndum og tónum, allt frá íslenskri glímu að nútímadansi. Dagskráin stóð fram undir hádegi en kennsla hófst á ný klukkan 13.05.

Myndir sem Gréta Sóley Sigurðardóttir formaður FÁLMA tók. (http://www.ma.is/kvosin/myndasafn/album/42)