- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fagnar níræðisafmæli sínu í dag. Hún heimsótti Menntaskólann á Akureyri síðast fyrir tæpum tíu árum í tilefni af Evrópska tungumáladeginum og hlaut hún þá gulluglu Menntaskólans í virðingarskyni. Heimsókninni var að sjálfsögðu getið á vef MA og segir þar m.a.: Vigdís ávarpaði nemendur og starfsfólk skólans á Sal í Kvosinni og ræddi þar meðal annars um gildi tungumála, mikilvægi þeirra í samskiptum þjóðanna, hversu miklu máli skipti að geta talað við fólk í fjarlægum löndum á þess eigin máli. Hún benti á nauðsyn þess að rækta íslenskt mál vegna þess að það væri svo merkilegt og svo lítið breytt um aldir og til þess væri tekið í útlöndum. Hún hvatti nemendur líka til að leggja stund á fleiri mál en ensku, ekki síst norðurlandamálin, lykilinn að námi og menningu á Norðurlöndum. Tungumálakunnátta væri lykillinn að öllum heiminum og öllum heimsins vísindum. Í lokin svaraði Vigdís nokkrum spurningum nemenda, aðallega um gildi málakunnáttu og hvernig hún nýttist henni í starfi.
Menntaskólinn á Akureyri sendir Vigdísi hamingjuóskir í tilefni dagsins.