- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Áður hefur verið greint frá því að í vetur hafi verið bryddað upp á þeirri nýbreytni í samstarfi Félags eldri borgara og Menntaskólans á Akureyri að bjóða fullorðnu fólki að koma í skólann nokkrum sinnum síðdegis og fá tilsögn annars vegar í ensku og hins vegar í að nota tölvur og net og jafnvel farsíma, í boði nemenda í lífsleikni sem velja þessa gerð samfélagsverkefnis. Lífsleiknikennarar halda utan um þessa skemmtilegu nýbreytni.
Í dag var tími í tölvustofunni og þar voru hinir ungu nemendur meðal annars að aðstoða hina eldri við að færa myndir af myndavélum inn í tölvur og fleira í þeim dúr. Það fór vel á með nemum og leiðbeinendum og allir virtust hafa hið mesta gaman af. Og þeir fullorðnari létu afar vel af viðmóti og kunnáttu krakkanna og voru afar þakklátir fyrir að fá þetta tækifæri. Lífsleiknikennararnir sögðu að rétt rúmlega 20 manns hefðu komist að á þessu námskeiði og þeir væru aðeins brot af þeim fjölda sem sótt hefði um.