Úr skólanum
Úr skólanum

Það má segja að allt sé á töluvert mikilli hreyfingu í skólanum þessa dagana og svo verður út alla þá viku sem nú er að hefjast. Til stóð að á fjórða hundrað nemenda færu suður til Reykjavíkur á starfs og námskynningu í seinni hluta vikunnar sem leið, en vegna veðurs og ófærðar var frá því horfið. Hópur fjórðubekkinga fór þó suður á föstudag og nýtti sér kynningardag háskólanna á laugardag. Vonandi hafa allir komið heim nokkru vissari um það hvað framtíðin ber í skautu sínu.

Ný vika verður með ýmsum breytingum og stundaskrár margra brotnar upp. Nemendur í menningarlæsishluta Íslandsáfangans, rúmlega hundrað fyrstubekkingar, fara í námsferð til Siglufjarðar á mánudag, þar sem skoðuð verða iðnaðarsögusöfnin sem eru undir hatti Síldarminjasafnsins. Sex kennarar verða með þeim í för. Sama dag er stefnt að því að tilkynnt verði úrslit í samkeppni þriggja bekkja á raungreinasviði þriðja bekkjar um að taka þátt í samstarfsverkefni MA og Menntaskólans í Nuuk og fara þangað í kynnisferð á vordögum.

Mesta uppbrotið í dagskrá skólans eru lífsleiknidagar í fyrsta og öðrum bekk (einnig nefndir velgengnisdagar). Þá verður unnið að fjölmörgum og fjölbreytilegum verkefnum og hlýtt á fyrirlestra og leiðbeiningar um lífið og starfið í samfélaginu.

Þess má svo geta að páskaleyfið er handan við hornið.