Vegna tunglmyrkva 21. des 2010
Vegna tunglmyrkva 21. des 2010

Þriðjudaginn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Ef veður leyfir sést myrkvinn frá Íslandi. Áhugasömum býðst að fygjast með úr stjörnuverinu í Möðruvöllum í MA frá kl 06.32 að morgni. Svo segir í tilkynningu frá Stjörnu-Odda-félaginu:

Ágætu Stjörnu-Odda-félagar og annað áhugafólk um stjarnvísindi:

Á vorjafndægri árið 2010, 20. mars kl. 17:32, var Stjörnu-Odda-félagið  á Akureyri stofnað í lok málþings á vegum Háskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri um Undur alheimsins í tilefni alþjóðlega stjarnfræðiársins 2009. Í lok málþingsins var sjónaukinn Stjörnu-Oddi á þaki Möðruvalla, raunvísindahúss MA,  afhjúpaður.

http://www.unak.is/radstefnur/page/undur_alheimsins.

Starfsemi félagsins átti að hefjast með fundi 13. nóvember í samvinnu við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness {http://www.astro.is/}, en þá skall á stórhríð svo að félagarnir að sunnan komust ekki norður og fundurinn því afboðaður. Fámennur fundur var samt haldinn, þar sem sagt var frá heimsfræðingnum Fred Hoyle (1915-2001), kenningum hans og áhrifum á almenning og fræðimenn.

Nú er tilefni að halda annan fund, því að á vetrarsólhvörfum þriðjudaginn 21. desember verður tunglmyrkvi, sem er þannig lýst í Almanaki Háskóla Íslands:

?Myrkvinn hefst (tungl snertir alskuggann) kl. 06 32. Þá er tungl allhátt í vestri frá Reykjavík séð. Tungl er almyrkvað frá kl. 07 40 til kl. 08 54. Tungl er laust við alskuggann kl. 10 02, í birtingu í Reykjavík. Þá er tunglið lágt í norðvestri.?

Búið er að setja inn grein um myrkvann og myndskeið úr forritinu Stellarium á Stjörnufræðivefinn:

http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/309

EF VEÐUR LEYFIR er ætlunin að fylgjast með myrkvanum, skoða stjörnur (t.d. Venus og Satúrnus) áður en birtir, og spjalla saman.

Takið litla sjónauka með ykkur og myndavélar ? ef til vill.

Þó að fundartími sé óvenjulegur, MYRKVINN BYRJAR KL. 06:32 AÐ MORGNI,  bjóðum við ykkur velkomin á þennan fund, sem er öllum opinn.

Líta má inn hvenær sem er milli hálfsjö og hálftíu.

Gengið er inn af bílastæði Heimavistar MA við Þórunnarstræti að norðurdyrum Möðruvalla.

[Gjörið svo vel að láta fundarboðið berast.]

 

.