Frá kynningu kjörsviða
Frá kynningu kjörsviða

Jafnan er allt á ferð og flugi í stórum skóla eins og MA en í dag eru annir óvenjumiklar. Allt er í einu: velgengnisdagar, kjörsviðakynningar og opið hús.

Eins og fram hefur komið eru velgengnisdagar í fyrsta og öðrum bekk, þeir hófust með því að fyrstubekkingar fóru niður í bæ til að horfa á kvikmynd í Sambíóunum, sem verður efni til að vinna úr í nokkrum smiðjum að því loknu. Nemendur í öðrum bekk fóru í kynningu á kjörsviðum námssviðanna, raungreinasviðs og tungumála- og félgasgreinasviðs samkvæmt nýrri námskrá, bæði í Kvosinni og í kennslustofum og vinna áfram með það. Aðrir nemendur eru í skólanum samkvæmt stundaskrá, en stofutöflum hefur verið breytt vegna velgengnisdaganna svo fólk er á nýjum slóðum við störf sín.

Á sama tíma eru nemendur í 4. bekk máladeildar að ganga frá kynningum á þeim borgum sem hugsanlega verður farið til, en hópurinn leggur af stað í kvöld og flýgur í stutta kynnisferð til útlanda í fyrramálið. Enn er þeim ekki ljóst nákvæmlega hvert för þeirra er heitið, en þeirra bíður að lenda á einhverjum erlendum flugvelli og koma sér á einhvern hátt til sinnar borgar, þegar ljóst verður hverjir fara saman og hvert.

Strax að loknum skóladegi í dag hefst Opið hús sem er sérstaklega ætlað er öllum 10. bekkingum grunnskóla og aðstandendum þeirra, en þar verður mikil kynning á öllu skólalífinu í MA, náminu og því fjölbreytta félagslífi sem skólinn státar af. Opna húsið er að miklu leyti í höndum nemenda sjálfra og þeir eru til skrafs og ráðagerða fyrir þá sem vilja kynna sér MA.