Veður kom ekki fyrir að nemendur MA héldu glæsilega árshátíð í Íþróttahöllinni í gærkvöld. Húsakynnin voru smekklega skreytt í spilavítisstíl.

Prúðbúnir fjórðubekkingar gengu í salinn og röðuðu sér upp við sviðið og sungu skólasöng MA. Kór MA söng þrjú lög í upphafi og undir borðhaldi léku nokkrir nemendur á píanó. Dansfélagið Príma sýndi fjölbreytta dansa úr mörgum heimsálfum og stjórn TóMA, Tónlistafélags MA, hafði sett saman stórgóða fjölmenna hljómsveit með þremur söngvurum. Verðlaunahafar í tónlistarkeppninni Viðarstauki, fluttu atriði, Björn Helgi Björnsson lék fyrst á píanó og Rán Ringsted og Margrét Hildur Egilsdóttir sungu saman. Sýnd vöru myndbönd tveggja myndbandafélaga. Flutt var minni menntskælinga, en það gerði Helga Rún Jóhannsdóttir í 2. bekk. Skólameistari Jón Már Héðinsson ávarpaði einnig hátíðargesti.

Heiðursgestur árshátíðar var í þetta sinn Þuríður Sólveig Árnadóttir, sem var fyrst kvenna til að vera formaður Skólafélagsins Hugins veturinn 1983-84. Hún fjallaði um jafnrétti og hvatti stúlkur sérstaklega til að láta til sín taka í félagsstörfum, það væri ekki eðlilegt að stúlkur væru í miklum minnihluta í stjórunarstörfum þegar þær væru mikill meirihluti nemendahósins.

Hafsteinn Ísar Júlíusson ritari stjórnar Hugins var veislustjóri en undirbúningur hátíðahaldsins var í styrkum höndum stjórnar félagsins, Ingvars Þóroddssonar, Rebekku Garðarsdóttur, Ísaks Mána Grant, Elmars Blæs Arnarsonar, Kolfinnu Friggjar Sigurðardóttur, Unu Magneu Stefánsdóttur og Sölva Karlssonar. Mikill fjöldi nemenda í öllum bekkjum vann að undirbúningi hátíðarinnar, hópur þeirra var á hatíðinni við þjónustustörf og enn annar hópur við frágang að hátíðinni lokinni í nótt.

Nokkrar myndir af fjórðubekkingum að koma sér í hátíðarstemminguna eru á Facebook.