Frá Árshátíð MA 2012
Frá Árshátíð MA 2012

Árshátíð MA verður í Íþróttahöllinni í kvöld. Þar er búist við að minnsta kosti 900 árshátíðargestum, sem taka þátt í viðamikilli dagskrá.

Unnið hefur verið að undirbúningi árshátíðar síðustu vikur. Í kvöld verður stórborgaþema á hátíðinni og gestum boðið að dveljast í nokkrum helstu stórborgum veraldar. Nemendur í fjórða bekk munu að vanda skarta þjóðlegum klæðnaði og setið verður til borðs og snæddur margréttaður matur.

Dagskrá árshátíðar er sífellt fjölbreyttari og viðameiri. Auk hefðbundinna ávarpa má þar nefna nokkur tónlistaratriði þar sem söngvarar og hljóðfæraleikarar úr röðum nemenda stíga á svið. Leikfélag MA mun frumflytja frumsamið leikrit, myndbandamenn munu sýna alls kyns smámyndir, en langviðamesta atriðið verður sem fyrr frá dansfélaginu Prima. Að þessu sinni munu um það bil 200 nemendur sýna afar viðamikil dansatriði, sem sagt er að slái þeim miklu dönsum við sem áður hafa verið sýndir á árshátíð MA.

Öllum árshátíðum fylgir dans og í kvöld munu tvær hljómsveitir leika fyrir dansi í stóra salnum og ein á efri hæð. Það eru Þuríður formaður og hásetar hennar sem halda uppi fjörinu í gömlu dönsunum uppi, en undanfarið hafa íþróttatímar í skólanum verið dansæfingatímar. Í stóra salnum verða hljósveitirnar Kaleo og Sálin hans Jóns míns, og þar verður dansað með frjálsri aðferð.

Árshátíð MA er án efa langfjölmennasta samkvæmi ungs fólks á Íslandi þar sem áfengi eða önnur fíkniefni koma hvergi við sögu, og svo hefur verið um árabil.

Gleðilega hátíð!