Ásthildur Ómarsdóttir og Stefán Elí Hauksson þáttastjórnendur
Ásthildur Ómarsdóttir og Stefán Elí Hauksson þáttastjórnendur

Ásthildur Ómarsdóttir og Stefán Elí Hauksson eru nemendur við Menntaskólann á Akureyri. Samhliða námi sinna þau dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Í febrúar hefst þáttaröð á sjónvarpsstöðinni N4 þar sem Ásthildur og Stefán Elí verða við stjórnvölinn. Um er að ræða sex þætti um ungt fólk á Norðurlandi eystra. Undirrituðum lék forvitni á að vita meira um þáttagerðina og settist niður með verðandi sjónvarpsstjörnum.

Hvað heitir þátturinn og um hvað fjallar hann?

Ásthildur: Hann heitir Ég um mig. Hann er um ungt fólk sem er að gera eitthvað spennandi, fást við óhefðbundin viðfangsefni má segja. Við heimsækjum nemendur í framhaldsskólunum á svæðinu og spjöllum við þá.

Stefán Elí: Það er ekki útilokað að við heyrum í einhverjum í grunnskólunum líka og þeim sem eru ekki í skóla en eru kannski að vinna. Hugmyndin er að ná í ungt fólk sem er óhrætt við að framkvæma það sem það langar til að gera. Við erum ekki að leita að fólki sem eyðir öllum deginum í símanum. Við viljum sýna fjölbreytnina.

Hvernig kom það til að þið tókuð að ykkur stjórn þáttarins?

Ásthildur: Þátturinn er búinn að vera í vinnslu síðan 2014-2015 þegar ég fékk hugmyndina að honum. Síðan þá hef ég verið að þróa hugmyndina áfram. Svo þegar við fengum styrk til að gera þáttinn var ákveðið að fara af stað.

Stefán Elí: Ég sá auglýsingu frá N4 og sendi þeim línu. Í framhaldinu fékk ég fundarboð þar sem ég var spurður hvort ég vildi koma og ræða möguleikann á að taka þátt. Eftir það ákvað ég að slá til.

Teljið þið að reynsla ykkar úr skóla muni nýtast við dagskrárgerðina?

Ásthildur: Já. Til dæmis hvernig á að koma fram, tala við fólk og svo allt félagslífið á skólagöngunni. Það hjálpar manni að tala við hvern sem er. Einstakar greinar hjálpa kannski ekki til í þessu en bara það að vera í skólanum, þá er maður með svo mörgu fólki og lærir mannleg samskipti af því.

Stefán Elí: Ég veit ekki hversu mikið ég ætla að gefa skólanum fyrir mínar gáfur [Stefán Elí hlær] en ég efast ekki um að skólinn hefur gefið mér einhver verkfæri.

 

Fyrsti þátturinn fer í loftið mánudaginn 4. febrúar. Við þökkum þeim Ásthildi og Stefáni Elí fyrir spjallið og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.