- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Atli Fannar Franklín bar sigur úr býtum í lokakeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fram fór í Reykjavík á laugardag. Þrír nemendur Menntaskólans á Akureyri til viðbótar eru í þeim hópi 17 bestu í keppninni sem boðið hefur verið að taka þátt í norrænu stærðfræðikeppninni, sem fram fer 3. apríl næstkomandi. Þeir eru Sindri Unnsteinsson, sem var í 6.-7. sæti, Brynjar Ingimarsson sem var í 11. sæti og Erla Sigríður Sigurðardóttir, sem var í 13. - 14. sæti og er eina stúlkan í 17 manna úrvalinu.
377 nemendur úr 40 framhaldsskólum tóku þátt í forkeppninni og rúmlega 40 þeirra sem best stóðu sig þar bauðst að taka þátt í lokakeppninni. Sterkustu stærðfræðingarnir í keppninni skipa jafnan ólympíulið Íslands, en í sumar fara leikarnir fram í Rio de Janeiro í Brasilíu. Þegar hefur Atla Fannari og þeim sem lentu í öðru og fimmta sæti verið boðið sæti í liðinu, þeir sem voru í 3. og 4. sæti verða orðnir of gamlir þegar til leikanna kemur. Þrír til viðbótar verða valdir í liðið að lokinni norrænu keppninni í byrjun apríl.
Skólinn óskar þeim Atla Fannari, Sindra, Brynjari og Erlu til hamingju með árangurinn.