Íslenska liðið í Eystrasaltskeppninni
Íslenska liðið í Eystrasaltskeppninni

Atli Fannar Franklín er nýkominn heim úr Eystrasaltskeppninni í stærðfræði sem fór fram í Oulu í Finnlandi.

Atli Fannar Franklín er talnaglöggur og hefur staðið sig framúrskarandi vel í stærðfræðikeppni og verið í liði Íslands á stærðfræðimótum erlendis. Hann er nýkominn úr keppnisferð til Finnlands, en lið Íslands var valið í kjölfar forkeppninnar í stærðfræði fyrir fáum vikum.

Keppnin í ár fór fram í Oulu í Finnlandi, sem fyrr segir, í hörkufrosti, að sögn Atla, en því hefði ekki verið spáð. Í þessum  kulda kepptu þátttökuþjóðirnar í fimm manna liðum. Að þessu sinni voru í keppninni lið frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Póllandi, Rússlandi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Atli segir að liðin hafi setið hvert um sig og glímt við 20 dæmi á fjórum og hálfum tíma. Íslendingar hafi sjaldan riðið feitum hesti frá keppninni, jafnan verið í næstneðsta eða neðsta sæti, og að þessu sinni langneðst. “Þetta voru bara mjög óhefðbundin og erfið dæmi í ár sem pössuðu illa við styrkleika liðsins okkar,” sagði Atli. Að öllu öðru leyti hafi ferðin verið skemmtleg, Íslendingarnir haft mest samskipti við Danina, eins og í Ólympíukeppninni í sumar, en líka við Svíana, enda tveir Íslendinganna vel sænskumælandi. Þá var farið í kynnisferðir og heimsóknir á söfn.

Atli gat þess í lokin að hann væri að undirbúa innanskólastærðfræðikeppni, sem hann hefði í hyggju að halda í desember, - bíðið spennt eftir því.