Í Berlínarljósunum
Í Berlínarljósunum

Fimtudaginn 6. desember síðastliðinn lagði hópur nemenda úr valáfanganum ÞÝS2S050 af stað í fjögra daga menningarferð til Berlínar. Berglind Bernardsdóttir segir svo frá ferðinni.

Í áfanganum hafði verið unnið hörðum höndum að því að kynnast sögu og menningu borgarinnar ásamt því að skipuleggja fyrirhugaða ferð. Nú var komið að hápunktinum þegar þrettán nemendur lögðu af stað ásamt Margréti Kristínu Jónsdóttur, þýskukennara, og Árna eiginmanni hennar.

Gist var á líflegu farfuglaheimili miðsvæðis í borginni og var neðanjarðarlestarstöð beint fyrir framan dyrnar sem kom sér afskaplega vel fyrir þreytta nemendur. Á kvöldin var huggulegt að sitja að sitja niðri í setustofunni og spjalla við ferðalanga víðsvegar að úr heiminum.

Allir fjórir dagarnir voru með sanni fullnýttir í að skoða margt merkilegt og áhugavert. Skoðuð voru mörg af þekktustu kennileitum Berlínar svo sem Brandenburgertor, Bernauer Strasse, Berliner Dom, Check Point Charlie og Gedächtniskirche svo fátt eitt sé nefnt. Við sáum einnig Holocaust Mahnmal og Neue Wache. Það var ákaflega áhrifamikið að líta báða þessa minnisvarða um fórnarlömb stríðs og átaka. Einnig fórum við upp í stóran glerkúpul á þaki þinghússins og sást þaðan vel yfir alla borgina. Ekki fengu þó allir nóg af hinu frábæra útsýni þaðan og hættu nokkrir ofurhugar sér upp í hinn himinháa sjónvarpsturn við Alexanderstorg.

Í Berlín er fjöldinn allur af söfnum og heimsóttum við ýmist Stasi-museum, Ritter-sport súkkulaðisafnið, DDR-museum eða Deutsches Technikermuseum. Þeir námsþyrstustu skoðuðu jafnvel þau öll. Ekki er hægt að fara til Berlínar án þess að líta múrinn augum, eða það sem eftir er af honum. Til þess gengum við meðfram East Side Gallery sem er útilistasafn þar sem ýmsar myndir eru málaðar beint á múrinn.

Á þessum árstíma setja jólamarkaðir mikinn svip á borgina og að sjálfsögðu var kíkt á nokkra af þeim frægustu, þar á meðal jólamarkaðinn við Gendarmenmarkt og við Charlottenburg höllina. Á þessum mörkuðum ríkti mikil jólastemming og mátti þar kaupa allskonar jóladót og kræsingar. Að sjálfsögðu var hið fræga Gluhweihn prófað en vakti það misgóðar viðtökur. Við fengum einnig mikinn frítíma þar sem okkur gafst færi á að upplifa borgina á eigin spítur, menningu hennar og skrautlegt mannlíf. Ófáar stúlkur leyfðu verslunargleðinni að taka völdin, aðrir týndust í neðanjarðarlestinni og enn aðrir nutu þess að skoða fallegan arkítektúr víðsvegar um borgina.

Eitt kvöldið fór hópurinn út að borða á Haus der 100 Biere. Þar voru ýmsir þýskir réttir smakkaðir, t.d. hinar frægu Flammkuchen, og að sjálfsögðu voru nokkrar bjórtegundir prófaðar í rannsóknarskyni.

Fyrir þá sem fara til Berlínar er skylda að smakka currywurst sem er þýsk pylsa með tómatsósu og karrýi. Sumir úr hópnum lögðu meira að segja leið sína á Curry36 en það er nokkurs konar Bæjarins bestu Berlínar.

Í ferðinni tók á hæfni nemanda í að skilja flókið samgöngukerfi borgarinnar og að bjarga sér á þýsku, því þrátt fyrir að þetta sé stórborg á heimsmælikvarða þá kunna langt frá því allir heimamenn ensku. Hópurinn kom heim snemma á þriðjudagsmorgun, allir þreyttir en sáttir eftir góða helgarferð.

Berlín er einstaklega heillandi borg og skemmtu allir sér afar vel þrátt fyrir nístandi kulda flesta dagana. Þessi ferð var ógleymanleg í alla staði og ég held ég geti fullyrt að allir sem í hana fóru muni heimsækja Berlín aftur seinna. Fjórir dagar í borginni er fjarri því nóg og var mikið sem ekki gafst tími til að skoða. Ég mæli eindregið með því að sem flestir velji þennan áfanga!

Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni.