Í Berlín
Í Berlín

Þann 6. desember síðastliðinn kvöddu 25 nemendur hið kalda Ísland og héldu út í heim í nokkurra daga ásamt kennara sínum Margréti Kristínu Jónsdóttur og manni hennar Árna Sveini Sigurðssyni.

Það var tvísýnt í fyrstu hvort fært yrði til Keflavíkur en heppnin var með okkur og lagði rútan af stað frá Akureyri um sjö þennan sunnudagsmorgun. Það voru því allir mættir tímanlega í flugvélina sem hélt af stað til Schönefeld flugvallarins í Berlín klukkan 15:10.

Þetta ferðalag stóð yfir í 5 daga og var margt brallað þann tíma. Þar má nefna að jólamarkaðir sem eru algeng sjón í Berlín á þessum árstíma voru heimsóttir oftar en einu sinni og allir gerðu sér glaðan dag þegar gengið var í gegnum þessi undursamlegu jólaþorp.

Til þess að við gætum kynnst borginni á þessum stutta tíma var þéttskipuð dagskrá sem við krakkarnir höfðum verið að setja saman fyrr í vetur í samráði við Margréti kennara. Fyrsta daginn var gengið að Berlínardómkirkjunni og svipast um í kringum Humboldt háskólann. Ekki gátum við sleppt því að sjá hið margrómaða Brandenborgarhlið en þaðan röltum við að þinghúsinu og að minnismerkinu um helförina sem var afar áhrifamikið. Annan daginn fengum við leiðsögn um sjálfan Berlínarmúrinn þar sem sögð var saga hans. Við skoðuðum svo Gedächtniskirche en það eru tvær kirkjur sem standa hlið við hlið, önnur ný og hin frekar rúst af þeirri gömlu. Frjáls tími var gefinn eftir það og kíktu nokkrir í verslunarmiðstöðina KaDeWe og aðrir í dýragarðinn sem er í vesturhluta borgarinnar.

Það var ekki hægt að sleppa því að kíkja á söfn og þar gátu nemendur valið um mismunandi söfn eftir áhuga. Margir fóru á Menschen Museum sem er eins konar líkamspartasafn. Aðrir kíktu á Ólympíuleikvanginn, Deutsches Historisches Museum (e. k. Þjóðminjasafn) eða Gyðingasafnið. Á milli dagskrárliða var tíminn nýttur í að versla jólagjafir ásamt einhverju fyrir sjálfan sig, nýr matur smakkaður og Glühwein drukkið.

Ferðin hefði ekki getað verið betri og höfðu allir gaman af. Þegar heim var komið vorum við öll sammála um það að þetta væri borg sem við myndum klárlega heimsækja aftur.

Það var Rebekka Hekla Halldórsdóttir 3A sem tók þennan pistil saman.

Berlin 1

Berlin 2

Berlin 3