- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Þessa dagana eru 26 nemendur úr þriðja og fjórða bekk MA í Berlín, en þeir hafa á haustönninni unnið að undirbúningi ferðarinnar í valgrein í þýsku.
Í valgreinartímum hafa nemendurnir kynnt sér sögu Berlínar og það helsta sem þar ber fyrir augu og skipulagt dagskrá ferðarinnar undir verkstjórn Margrétar Kristínar Jónsdóttur, sem að sjáfsögðu er með í för.
Berlínarfararnir lögðu af stað áleiðis til Berlínar á laugardagskvöld, að lokinni árshátíð, og koma til baka nú á fimmtudag. Þeir eru væntanlegir í skólann á ný föstudaginn 1. desember.
Dagskráin í ferðinni er mikil og fjölbreytt og nemendur viða að sér enn frekari upplýsingum um land og sögu, heimsækja söfn, smakka þýskan mat og læra að bjarga sér í stórborg svo fátt eitt sé nefnt.
Allt gengur vel, að sögn Margrétar nú fyrir skemmstu. Ljómandi hópur og veðrið líka nokkuð gott. Á morgun eru meðal annars á dagskrá söfn að vali ferðalanganna svo og Checkpoint Charlie, Ritter-sport kaffihúsið og jólamarkaðurinn á Gendarmenmarkt. Um kvöldið ferð hópurinn svo saman út að borða.
Margrét sendi nokkrar myndir, en fleiri eru á Facebooksíðu MA.