Birkir Blær sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna
Birkir Blær sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna

Birkir Blær Óðinsson sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna með sérlega glæsilegum flutningi á lagi Screamin' Jay Hawkins, I put a spell on you, í íþróttahöllinni á Akranesi þann 28. apríl síðastliðinn. Birkir Blær flutti sitt lag einn og óstuddur með sinn gítar og lék sér á einkar frumlegan og fjölbreytilegan hátt með þennan gamla standard. Í þessu lagi kemur glöggt fram hversu sterkur Birkir Blær er orðinn á söngsviðinu. Enda þurfti sigurvegari kvöldsins að vera miklum kostum búinn því keppendur voru verulega sterkir þetta árið.

Fram til 27. júlí 2018 verður hægt að horfa á Söngkeppni framhaldsskólanna á RÚV. Birkir Blær er númer átta í röðinni og byrjar þegar um 25 mínútur eru liðnar af útsendingunni.

Birkir Blær flytur lagið I put a spell on you á söngkeppni framhaldsskólanna 2018

Þess má geta að Menntaskólinn á Akureyri vann Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2003 þegar Anna Katrín Guðbrandsdóttir flutti Vísur Vatnsenda-Rósu á mjög eftirminnilegan hátt í útsetningu Styrmis Haukssonar og Ólafs Hauks Árnasonar.