Eva Harðardóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Bjarni Jónasson. Myndina tók Kristinn Ingvarsson
Eva Harðardóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Bjarni Jónasson. Myndina tók Kristinn Ingvarsson

Bjarni Jónasson heimspekikennari og Hildur Lilja Jónsdóttir nemandi í 3F tóku þátt í málstofu á árlegri friðarráðstefnu Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, sem fór fram í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Stofnun Sæmundar fróða og Jafnréttisskólann. Hildur Lilja var þar í pallborði ásamt Margréti Unni (stúdent 2021) sem var með myndband frá Spáni og talaði um mikilvægi bókmennta í kennslu á þremur tungumálum, Bjarna Jónassyni og Evu Harðardóttir sem stjórnaði umræðunum. Eva hefur kennt við MA þannig að í pallborðinu voru núverandi og fyrrverandi kennarar og nemendur, auk fleiri.

,,Málstofan hét á ensku Global Citizenship Education for Peace (sem mætti þýða sem alþjóðleg borgaravitund í menntun til friðar) og fór fram í fyrirlestrarsal Veröld - húsi Vigdísar. Í pallborði voru Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur á menntavísindasviði HÍ, Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, Hildur Lilja Jónsdóttir, nemandi MA – 3.F, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og María Rán Guðjónsdóttir, stofnendur Angústúru forlags og Juan Pablo Villalobos rithöfundur frá Mexíkó og Eva Harðardóttir sem stýrði pallborðsumræðunum. Málstofan fjallaði, svona í grófum dráttum, um hvernig betur megi nota bókmenntir í kennslu í framhaldsskólum og víðar til að breyta heiminum (hógvært markmið).

Að lokinni málstofunni vorum við Eva svo með vinnustofu fyrir kennaranema og aðra áhugasama, þar sem Hildur Lilja sömuleiðis var með í för. Bæði málstofan í heild sinni og vinnustofan byggir á áfanganum okkar Evu, Lýðræði og mannréttindi, þar sem við höfum í sameiningu reynt að nota bókmenntir Angústúru (eða þeim bókmenntum sem þær hafa snarað yfir á íslensku) til að varpa ljósi á annars vegar hversu stór heimurinn er (út af því að við höfum alltaf bara verið hvít og rík og allar okkar bókmenntir fjalla um vondar fyllibyttur eða morðingja í drungalegu húsi) og hversu mikilvægt það er að reyna að setja sig í spor annarra hópa í veröldinni í gegnum bókmenntir, þá sérstaklega bókmenntir sem segja sögur sem við þekkjum ekkert af, eins og t.d. Konu í hvarfpunkti eða Uppljómun í eðalplómutrénu. Með fylgir tengill að málstofunni (okkar byrjar á ca. 2.11).“

Bjarni Jónasson