BLAM!
BLAM!

Nemendur í menningarlæsishluta Íslandsáfangans og nokkrir til viðbótar, meðal annars úr skapandi íslenskuáfanga sem tengist leiklist og kvikmyndum, fóru í dag í Hof og kynntu sér sýninguna Blam! sem þar verður á miðvikudag og fimmtudag.

Kristján Ingimarsson sem er potturinn og pannan í BLAM! og Neander-leikhúsinu í Danmörku er stúdent frá MA og hann bauð hópi nemenda að koma og kynna sér hugmyndirnar á bak við BLAM og hvernig verkið var unnið og auk þess fengu nemendurnir að sjá brot úr sýningunni, að vísu ekki með tónlist og hljóðum og tækni sem verður keyrð á fullu á alvörusýningum. Kristján hefur áður komið með sýningar sínar hingað heim og sýnt þær bæði í Reykjavík og á Akureyri, en hann fer ótroðnar slóðir í verkum sínum. Látbragðsleikur, trúðleikur, fimleikar, dans, parcour og margt fleira skapar þá spennu sem verkin einkenna. Blam! hlaut Reumert-verðlaunin dönsku á síðata ári, en þau eru einhver helstu leiklistarverðlaun Dana.

Kristján og félagar hans sýna Blam! í Hofi miðvikudags- og fimmtudagskvöld, en þeir eru nýkomnir úr Borgarleikhúsinu þar sem þér sýndu alla síðustu viku fyrir troðfullu húsi og komust færri að en vildu.