Í dag hefjast vorannarprófin og það verður í nógu að snúast næstu dagana. Hér eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga í próftíðinni:

Það er nauðsynlegt að mæta tímanlega í próf. Það er erfitt að einbeita sér ef maður kemur á síðustu stundu og það truflar alla aðra ef maður kemur of seint.

Stofutöflur eru hengdar upp í anddyri Hóla að morgni prófdags eða daginn áður. Þar sést hvar hver bekkur er í prófi í það sinnið.

Munið að taka ekkert með ykkur inn í prófstofu annað en pennaveski og leyfileg hjálpargögn. Ekki má hafa síma á sér, jafnvel þótt slökkt sé á honum. Vinsamlegast kynnið ykkur reglur skólans um próf og prófhald, sjá http://www.ma.is/is/namid/reglur-um-nam/prof-og-profhald

Ef einhver verður svo óheppin/n að vera veikur í próftíð þarf að hringja og tilkynna veikindi áður en próf hefst, í síma 455-1555, og skila svo vottorði til að eiga rétt á sjúkraprófi.

Mjög mikilvægt er að það sé hljótt í skólanum á próftíma. Hljóð berst inn í stofur af göngum og úr Kvosinni, jafnvel úr anddyrinu á Hólum. Þess vegna eruð þið beðin um að fara úr skólanum um leið og þið ljúkið prófi, en safnast ekki saman í Kvosinni eða annarsstaðar. Allur hávaði getur verið mjög truflandi fyrir þá sem eftir eru í prófum. Hafið það í huga og sýnið tillitsemi.

Eftir að prófum lýkur síðdegis og á próflausum dögum er skólinn opinn til kl. 22 á kvöldin frá og með deginum í dag og hægt að nota stofur fyrir próflestur. Þrennt þarf að hafa í huga:

  • að ganga mjög vel um skólann,
  • ekki er leyfilegt að panta stofur eða skrá þær uppteknar,
  • að það er nauðsynlegt að sameinast um notkun stofanna, það er til dæmis ekki tillitssamt að einn eða tveir haldi heilli stofu heilu dagana. Munum að nemendur eru á áttunda hundrað en kennslustofurnar ekki nema þrjátíu eða svo.


Gangi ykkur vel og gerið eins vel og þið getið!