Nemendur í Berlínarvali ásamt Hörpu Sveinsdóttur, þýskukennara.
Nemendur í Berlínarvali ásamt Hörpu Sveinsdóttur, þýskukennara.

Nemendur í Berlínarvali héldu utan á dögunum og hrepptu einmuna haustblíðu í stórborginni. Mikill öryggisviðbúnaður lögreglu kom á óvart enda rólegheita hópur frá Menntaskólanum á Akureyri á ferð. Í ljós kom að Joe Biden Bandaríkjaforseti var líka í heimsókn!

Í áfanganum kynna nemendur sér sögu, menningu og staðhætti í Berlín og var dagskáin helguð heimsóknum á sögufræga staði sem oftar en ekki tengjast afleiðingum seinni heimsstyrjaldar, skiptingu Þýskalands og byggingu múrsins. En það var líka borðað og verslunarmiðstöðvar þræddar, farið í súkkulaðiverslun, Hesta-Jói sunginn á torgum, allskyns söfn skoðuð og klifið upp í kirkjuturna, farið á körfuboltaleik í Evrópudeildinni og fótboltaleik á Ólympíuleikvanginum, farið á tónleika í Berlínarfílharómóníunni og í dýragarðinn fræga svo nokkur dæmi séu tekin.

Nemendur héldu dagbók þessa daga og tóku þátt í myndasamkeppni. Ferðin er því vel skrásett. Það sem einkenndi þennan hóp var mikið sjálfstæði og ferðagleði á milli borgarhluta. Almenningssamgöngur voru vel nýttar og allt gekk eins og í sögu og það sama má segja um ferðalagið til Berlínar og aftur heim. Fararstjóri var Harpa Sveinsdóttir, þýskukennari, og ritaði hún þennan pistil.