Hálfdán Einarsson áritaði bókina árið 1759
Hálfdán Einarsson áritaði bókina árið 1759

Rekja má upphaf MA til Hólaskóla í Hjaltadal sem tók til starfa árið 1106. Skólinn var lagður niður fyrir 223 árum, á því herrans ári 1802. Síðar meir fór nám fram í Möðruvallaskóla (1880-1902) og Gagnfræðaskólanum (1902-1930) áður en Menntaskólinn á Akureyri var settur í fyrsta skipti. Á bókasafni MA leynist athyglisverð bók sem rekja má til Hólaskóla. Hún heitir Commentariorum Rhetoricorum sive Oratoriarum institutionum Libri fex. Hún er eftir Gerardus Vossius (1577-1649) og kom út árið 1643. Þetta er þykk og mikil bók, klædd brúnu leðri með gyllingu á kili.

Það sem er ekki síst athyglisvert við skrudduna atarna, eru handskrifaðar merkingar með bleki fremst í bókinni. „E Libris Halfdani Einars Holis, d. iix kal. Dec. 1759.“ Af þessu að dæma var eigandi bókarinnar Hálfdán Einarsson (1732-1785) sem hefur þá líklega skrifað þessi orð í bókina (í ágúst IIX eða desember IIX?) árið 1759. Hálfdán var skólameistari Hólaskóla í 30 ár. Hann stundaði nám í guðfræði, stærðfræði og eðlisfræði við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan vorið 1755. Sama ár tók hann við stöðu skólameistara Hólaskóla aðeins 23 ára gamall. Hann gegndi starfinu til dauðadags árið 1785. Kona hans var Kristín Gísladóttir, Magnússonar biskups á Hólum.

Fjórum árum eftir að Hálfdán merkti bókina sem nú er geymd á bókasafni MA, var hann sæmdur meistaranafnbót af Kaupmannahafnarháskóla. Eftir það var hann kallaður Meistari Hálfdan. Meistari Hálfdan var sprenglærður, geðprúður og talinn góður kennari en átti í erfiðleikum með Bakkus. Hann stundaði ritstörf og þýðingar meðfram kennslu. Flaggskipið hans er bókmenntasaga Íslands, Sciagraphia Historiae Liteariae Islandicae, sem rituð var á latínu og kom út í Kaupmannahöfn árið 1777. Fyrir það var hann sæmdur þremur heiðursgullpeningum. Þá gegndi Hálfdán biskupsstarfi 1779 til 1784.