- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Veturinn 1912-1913 fékk Bandaríkjamaður, búsettur á Akureyri lánaða bók í Gamla skóla. Bókin Travels in the Island of Iceland, during the Summer of the Year 1810 eftir Sir George Steuart Mackenzie, gefin út árið 1812, er merkilegur gripur og verðskuldar sérstaka umfjöllun. Hún verður að bíða betri tíma því þessi saga snýst um manninn sem fékk bókina að láni. Saga hans er ekki síður áhugaverð.
Árið 1840 sigldi maður að nafni August Schrader frá Hannover í Þýskalandi til Bandaríkjanna. Hann átti sér draum um að öðlast betra líf í Ameríku eins og tilfellið var með marga Evrópubúa á 19. öld. Átján árum eftir búferlaflutningana, árið 1858, eignaðist August son. Sá var skírður George H. F. Schrader og hann er maðurinn sem fékk nefnda bók að láni. Kíkjum á forsöguna.
August gamli stofnaði fyrirtæki fjórum árum eftir komuna til Bandaríkjanna. Fyrirtækið framleiddi m.a. köfunarútbúnað og var leiðandi í þróun á gúmmívörum ýmiss konar. Fyrirtækið þróaði vörur fyrir hinn heimsþekkta dekkjaframleiðanda Goodyear. Árið 1890 gekk 32 ára gamall George Schrader til liðs við föður sinn. Varð hann fljótt aðal driffjöðurin í fyrirtækinu og átti stærstan þátt í að gera það að einu fremsta fyrirtæki heimsins á sínu sviði. Einn er sá hlutur sem George fann upp sem hefur haft mikil áhrif á daglegt líf fólks víða um heim allar götur síðan. George kynnti Schrader-ventilinn til sögunnar árið 1893 og í kjölfarið fór vegur fyrirtækisins vaxandi í Bandaríkjunum og víðar. George mokaði inn peningum, varð þekktur maður vestra og umgekkst suma af helstu viðskiptajöfrum Bandaríkjanna um aldamótin 1900.+
Nítján árum eftir þessa merkilegu uppfinningu og tímabil frægðar og frama sigldi Schrader til lítils bæjar á norðanverðu Íslandi. Áfangastaðurinn var Akureyri. Hann dvaldist í bænum frá júlí 1912 til nóvember 1915 og hélt til á Hótel Akureyri í Aðalstræti. Akureyringar voru mjög forvitnir um þennan nýja íbúa, auðjöfurinn sem hafði byrjað með tvær hendur tómar í Ameríku og grætt fúlgur fjár í viðskiptum. Hann hafði látið til sín taka á sviði mannúðar- og dýraverndunarmála í heimalandinu og átti eftir að halda því starfi áfram á Akureyri. Hann stuðlaði að bættu bæjarsamfélagi fyrir menn og málleysingja með fjárframlögum til handa mannúðarsamtökum á staðnum. Schrader þótti Akureyringar hirðulausir um hag sinn. Hann kenndi þeim að hugsa betur um tennurnar og að fara úr skítugum vinnugallanum eftir vinnu. Þá hafði hann gaman af því að gleðja börnin í bænum. Hann bauð upp á jólaball í Samkomuhúsinu, bauð þeim í útreiðartúra og dreifði til þeirra sælgæti. Schrader var mjög svo umhugað um velferð hrossa. Hann gaf út bækur sem miðuðu að því að bæta velferð manna og hesta. Hann gagnrýndi meðferð Íslendinga á hrossum og þótti umgengni þeirra við dýrin slæm. Úr því vildi hann bæta. Hann fjármagnaði byggingu á hesthúsi og gisitheimili á Akureyri sem hann hugsaði fyrst og fremst fyrir þá sem höfðu lítið milli handanna. Verkinu lauk í desember 1914 og afraksturinn var aðstaða fyrir 130 hross og gistirými fyrir 30 manns. Með framtakinu vildi Schrader leggja sitt af mörkum við að bæta skilyrði hestanna en um leið koma til móts við efnalitla einstaklinga sem vildu nýta sér slíka þjónustu. Schrader nefndi húsið Caroline Rest eftir móður sinni en það stóð við Kaupvangsstræti, í miðju Grófargili.
Örlög George H. F. Schrader eru sveipuð nokkuð dulúðlegum blæ. Í nóvember 1915 ákvað hann að stíga um borð í síldarbátinn Helga magra sem lá við höfnina á Akureyri og sigla af landi brott. Akureyringum var orðið ljóst að Schrader hlyti að vera haldinn illvægum sjúkdómi, slíkar voru aðfarirnar þegar hann gekk um borð. Eftir að hafa fleygt persónulegum skjölum í hafið og skipt peningum á milli áhafnarinnar mætti Schrader örlögum sínum. Þriðju nótt siglingarinnar vöknuðu áhafnarmeðlimir við skothvell en svo virðist sem Schrader hafi beitt skotvopni og síðan látið sig falla í Atlantshafið.
Fáir sem engir gripir úr fórum þessa velgjörðarmanns hrossa eru til á Íslandi í dag þrátt fyrir rúmlega þriggja ára dvöl hér. Skólaskýrsla Gagnfræðaskólans á Akureyri fyrir skólaárið 1912-1913 sýnir þó með óyggjandi hætti að George H. F. Schrader, einn ríkasti maður Bandaríkjanna á sínum tíma, skildi eftir fótspor í Gamla skóla. Hann fékk gamla og illa farna skruddu merkta Möðruvallaskóla að láni en skilaði henni í töluvert öðru ástandi en hann fékk hana. Segir svo í skólaskýrslu undir liðnum „Gefið band: Mr. George H. F. Schrader. Þessi ameríkanski heiðursmaður fjekk bók þessa að láni. Hún var í ljelegu bandi, en hann sendi hana aftur í dýru skrautbandi.“
Víst er bókin vegleg og glæsileg á að líta. Ekki liggur fyrir vitneskja um hver batt bókina svo fagmannlega inn en hitt er víst að sá hinn sami hefur líklega ekki verið sá sleipasti í ensku. Á kili bókarinnar stendur með gylltum stöfum „Travels in the Iceland“ sem er auðvitað rangnefni. Mögulega og líklega er þetta eina eintakið í veröldinni sem ber þennan kómíska titil á kili. Fyrir vikið er eintakið enn merkilegra. Bók „ameríska Akureyringsins“ George H. F. Schrader kom í leitirnar við tiltekt í geymslu MA á síðastliðnu ári þar sem hún er nú varðveitt.