- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Annað slagið segjum við fréttir af gömlum gripum sem finnast í geymslum Menntaskólans, hlutum sem tengjast langri sögu skólans og hafa sögulegt gildi. Gjarnan er um bækur að ræða enda ófáar skruddurnar sem gengið hafa manna á milli í MA og forverum hans. Ekki alls fyrir löngu fannst bók með áhugaverðri áritun sem rekja má til Friðriksgáfu, hins sögufræga amtmannsseturs á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hún ber einnig stimpil Gagnræðaskólans á Akureyri. Frederiksgave var gjöf Friðriks VI. Danakonungs, reist árið 1829 en brann til kaldra kola vorið 1874. Friðriksgáfa hefur löngum heillað söguáhugafólk og veitt rithöfundum innblástur, nú síðast Arnaldi Indriðasyni í bókinni Ferðalok sem kom út fyrir síðustu jól.
Bókin sem hér um ræðir á sér nokkuð merkilega sögu. Hún kom fyrst út í Þýskalandi árið 1844. Hún ber titilinn Chemische Briefe. Höfundurinn var þekktasti efnafræðingur Þýskalands á 19. öld, Justus von Liebig (1803–1873). Bókinni var á sínum tíma ætlað að glæða áhuga á efnafræði og útskýra hana fyrir almenningi. Bókin er 350 blaðsíður, innbundin með gyllingu á kili, 18×12 cm, á stærð við ljósmynd og árituð með dökku bleki. Chemische Briefe hefur allnokkrum sinnum komið út á prenti. Umrætt eintak er frá 1844 og tilheyrir því fyrstu prentun bókarinnar. Efst á fyrstu síðu hennar er ritað: „.Friðriksgáfu · 17/ii 69. Þórður Tómasson“.
Þórður Tómasson, líklegur eigandi bókarinnar, var héraðslæknir í Norður- og Austuramti á árunum 1868 til 1873. Hann var sonur Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns. Ekki er gott að segja hvernig bókin rataði í Gagnfræðaskólann á sínum tíma. Freistandi er að tengja það við Möðruvallaskóla sem tók til starfa sex árum eftir að Friðriksgáfa brann. Hvaða sögu bókin geymir um það sem fór fram í Gáfu miðvikudaginn 17. febrúar 1869 vitum við ekki. En við vitum hið minnsta að einhver var með penna á lofti þennan kalda febrúardag fyrir rúmlega 156 árum og áritaði bók í húsi amtmannshjónanna. Bók sem mun mögulega núna, í ljósi sögunnar, glæða áhuga á sögu.