Kennslustofur skólans standa auðar og nemendur læra heima
Kennslustofur skólans standa auðar og nemendur læra heima

Skólameistari sendi nemendum eftirfarandi bréf:

Kæru nemendur.

Það fór ekki eins og ég vonaði að við værum að létta aðgerðum og komast í “eðlilegra” skólastarf, því ný reglugerð um skólastarf miðar við tíu í hóp og tvo metra á milli.

Fjarnám mun því halda áfram í MA a.m.k. til 17. nóvember en þá rennur núgildandi reglugerð úr gildi. Í henni er gefin undanþága með fjöldamörk í stofu í fyrsta árs áföngum og þar mega vera allt að 25 nemendur. Hins vegar gilda líka 2 m fjarlægðarmörk og við höfum því ekki tök á að koma bekkjum fyrir í stofum með slíku bili. Skólinn er engu að síður opinn, og nemendur geta lært þar að viðhöfðum sóttvarnarreglum eða bókað viðtöl hjá námsráðgjöfum, skólasálfræðingi eða stjórnendum.

Það er gott að hugsa til þess að með þessum hertu aðgerðum getum við vonandi sem fyrst tekið upp rýmra skólastarf, mögulega svipað og við vorum með fyrir 20. október.

Í svona aðstæðum er mikilvægt að hreyfa sig, fara út að ganga eða hlaupa, nýta sér Zoom-íþróttatímana hjá íþróttakennurunum og fá jákvæða strauma með því að hjálpa til heima, taka þrjár mínútur þegar þið vaknið og hugsa hvað ætla ég að gera jákvætt í dag og þrjár mínútur í að þakka fyrir daginn. Gangi okkur öllum vel í verkefnum fram undan og sjáumst vonandi sem fyrst.

 Kær kveðja frá stjórnendum.