- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Eins og áður hefur komið fram í fréttum hóf Menntaskólinn á Akureyri á nýliðnu hausti starf samkvæmt nýrri námskrá, þar sem gert er ráð fyrir að nemendur geti sjálfir stýrt námshraða sínum og lokið stúdentsprófi á 3, 3½ eða 4 árum. Nemendur á fyrsta ári eru þeir fyrstu sem vinna samkvæmt þessari nýju námskrá.
Undanfarna daga hefur verið um það rætt í fjölmiðlum að álag á nemendur sé mikið og skóladagurinn langur. Það er þörf umræða, enda er fátt mikilvægara en að huga að velferð nemenda. Vissulega er álagið mikið. Hins vegar var öllum ljóst þegar námstíminn til stúdentsprófs var styttur að álag á nemendur og starfsfólk skólans myndi aukast. Styttingin hefur hvergi farið þannig fram að fellt hafi verið brott eitt námsár, heldur hefur inntaki námsins verið hagrætt þannig að nemandinn hljóti sem haldbesta menntun til undirbúnings námi í háskólum.
Langflestir stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri halda til háskólanáms heima og erlendis og samkvæmt vísbendingum frá háskólum svo og könnunum og viðtölum við gamla nemendur hefur skólinn veitt haldgóða menntun sem reynst hefur vel í háskólum. Þegar ný námskrá var gerð var litið til þess svo og viðmiða háskólanna sjálfra. Til þess að ná sem mestum árangri var ákveðið að skipa námi í 210 einingar, en víðast hvar er það 200 einingar, sem er lágmark. Til þess að mæta auknu álagi var ákveðið að veita nemendum svigrúm til að dreifa náminu á lengri tíma, eins og fyrr var sagt.
Menntaskólinn á Akureyri er á fyrsta ári með þessa nýbreytni. Þegar teknar eru upp miklar breytingar er óhjákvæmilegt að rekast á vankanta. Í skólanum er unnið að því að meta starfið og finna leiðir til úrbóta, þar sem þess er þörf. Til greina hefur komið að fækka sérgreinum brauta og gefa kost á að ljúka stúdentsprófi með 200 einingum og verið er að finna leiðir til að jafna álag í námi. Þá hefur verið stefna skólans um árabil að hafa nám og kennslu með fjölbreyttu sniði, meðal annars samþættingu náms, hópastarfi og símati. Eins er lögð áhersla á að námið fari sem mest fram í skólanum og dregið sé úr heimanámi. Þjónusta við nemendur er góð og námsráðgjafar og skólasálfræðingur hafa haft sérstaka umsjón með nemendum fyrsta bekkjar. Þá er í skólanum ríkulegt félagslíf, sem lengi hefur einkennt hann, og nýbreytni er mikil í líkamlegum og andlegum íþróttum. Þannig eru nýnemar í tveimur hefðbundnum íþróttatímum á viku auk eins tíma í jóga og í nýnemafræðslunni er námskeið í núvitund. Allt er þetta til þess að gera skólalífið sem fjölbreyttast og gagnlegast.
Starfsfólki MA er annt um nemendur sína og vill að þeim vegni sem best og reynir að hjálpa þeim að takast á við krefjandi verkefni. Nemendum á að finnast gaman í skólanum og líða vel. Skólinn hefur alltaf lagt áherslu á að hlusta á nemendur og gefa þeim færi á að taka þátt í umræðu og ákvarðanatöku. Fimmtudaginn 2. febrúar verður haldinn skólafundur þar sem ýmis mál verða tekin til umræðu, svo sem ný námskrá, einingafjöldi, lengd skóladags, skólaalmanak og fleira.