- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Það er hefð að fulltrúar afmælisárganga mæti við brautskráningu 17. júní og flytji ávörp, 10 ára, 25, 40, 50, 60 og jafnvel 70 ára stúdentar. Að þessu sinni átti Anna María Þórisdóttir fulltrúi 70 ára stúdenta ekki heimangengt en sendi eftirfarandi kveðju fyrir þeirra hönd.
Nunc est bibendum.
Nunc pede libero
Pulsanda tellus.
Latínan var mér mjög kær í skóla og vil ég minnast hennar með þessum orðum. Sjálfsagt mætti þýða þetta: Drekkum og dönsum, en Horatius komst betur að orði.
Hér fer á eftir lýsing á síðasta kennsludegi í 6. GM 1951 skv.dagbók minni frá þeim tíma:
,,Síðasti kennsludagurinn í 6. bekk rann upp.
Sigurður Pálsson enskukennari komst í gegnum alla lexíuna eins og hans var vandi.
Þórarinn skólameistari fór yfir „la fameuse régle des participes“ með okkur á sinni létta og glaðlynda hátt en í lok tímans var hringt á Sal.
Við sungum nokkur lög. Undir skólans menntamerki að lokum.
Það var ekki laust við að kökkur kæmi í hálsinn á mér. Á einu andartaki þutu í gegnum huga minn öll liðnu skólaárin og skýr var myndin af mjóu stelpunni sem stóð í horni skólastofunnar með bókabunkann í fanginu þegar fyrsti skóladagur hennar var að renna upp.
Eftir Sal var dönskutími. Venni gamli skilaði okkur stílum í síðasta sinn. Hann hélt okkur ekki lengi, sagði að við skyldum fara út í sólskinið og kvaddi okkur með gamalkunna glettnisbrosinu og góðleikinn skein út úr hrukkunum umhverfis augun. Blessaður karlinn!
Páll Árdal las með okkur kvæðið um hinn hamingjusama Pygmalion og rabbaði við okkur á sinn félagslynda og skemmtilega hátt.
Síðasta kennslustundin var stjörnufræði. Jóhann Lárus, þessi ágætismaður sem við höfðum pínt og plagað undanfarna þrjá vetur vegna lítils áhuga máladeildarnema á stjörnu- og stærðfræði, kvaddi okkur með sínu góðlátlega brosi. Við skömmuðumst okkar fyrir ódugnaðinn í þessum fögum og dáðumst að þolinmæði þessa manns.
Okkur bekkjarsystkinunum fannst ekki viðeigandi á þessum tímamótum að þjóta út eins og kólfi væri skotið sem þó hafði verið vandi okkar. Við stöldruðum við um stund inni í skólastofunni nú þegar þessum áfanga var lokið í lífi okkar."
Hér lýkur tilvitnun úr dagbók.
Ég sendi kveðjur okkar 14 sem eftir lifum af stúdentahópnum frá 1951. Við vorum 49 talsins og minnumst allra þeirra sem horfin eru.